Fréttasafn



8. feb. 2023 Almennar fréttir Nýsköpun

NSA traustur samstarfsaðili í aldarfjórðung

Á þessu ári er aldarfjórðungur síðan Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, NSA, hóf starfsemi og skrifar Sigurður Hannesson, stjórnarformaður NSA og framkvæmdastjóri SI, af því tilefni grein í Morgunblaðinu. Hann segir það mikils virði fyrir íslenskt samfélag að ný eftirsótt störf verði til, ný fyrirtæki og aukin útflutningsverðmæti. Þannig þróist atvinnulíf og meira verði til skiptanna. NSA hafi því mikilvæga hlutverki að gegna að fjármagna vænlega sprota og styðja við frumkvöðla í þeim tilgangi að skapa verðmæti fyrir íslenskt samfélag. 

Komið að fjármögnun um 200 fyrirtækja fyrir um 25 milljarða

Sigurður segir að á þeim tíma sem sjóðurinn hefur verið starfræktur hafi hann komið að fjármögnun um 200 fyrirtækja og hefur fjárfest fyrir um 25 milljarða á verðlagi dagsins í dag. Þessar fjárfestingar hafi skilað ríflegri uppskeru fyrir samfélagið, skapað eftirsótt störf, skilað sérfræðiþekkingu til landsins sem og útflutningstekjum. NSA veiti frumkvöðlum einnig mikilvægan faglegan stuðning á uppbyggingarskeiði sprota. Á þennan hátt hafi NSA verið jákvætt hreyfiafl í nýsköpunarumhverfinu.

Selja eignarhluti samhliða vexti 

Þá segir Sigurður í greininni að lengi vel hafi NSA verið eini samstarfsaðili frumkvöðla við fjármögnun en á síðustu árum hafa sprottið upp aðrir vísisjóðir sem fjárfesti í vænlegum sprotum. Þeir sjóðir hafi takmarkaðan líftíma sem þýði að selja þurfi eignir til að greiða fjárfestum til baka. NSA hóf starfsemi árið 1998 með um 5 milljarða framlagi. Þetta framlag hafi nýst vel og verið velt oft enda selji NSA eignarhluti í félögum samhliða vexti þeirra til þess að fjármagna nýja sprota. Þetta skapi NSA sérstöðu umfram aðra sjóði.

Aldrei verið meira fé til stuðnings nýsköpunar 

Í greininni kemur fram að tilkoma fleiri vísisjóða á undanförnum árum sem og aukning á fjármunum til Tækniþróunarsjóðs þýði að aldrei hafi verið meira fé til stuðnings nýsköpun en nú. Engu að síður sé full þörf á NSA enda þurfi sprotar fjármagn á ólíkum skeiðum uppbyggingar. Þannig komi Tækniþróunarsjóður að verkefnum á frumstigi. NSA fjármagni sprota snemma á æviskeiði félaganna ásamt englafjárfestum. Vísisjóðir komi síðar á líftímanum. Ef vel gangi fá félög fjármagn frá stofnanafjárfestum og kunni á endanum að verða skráð á hlutabréfamarkað.

NSA er brú frá hugmynd að félagi sem skapar verðmæti

Sigurður segir að þessari fjármögnun NSA hafi verið líkt við brú sem sé mislöng eða stutt eftir aðstæðum á mörkuðum hverju sinni. Annað mikilvægt hlutverk NSA sé að bregðast við markaðsbresti í fjármögnun, milda sveiflur og beita sér þar sem aðstæður krefjast hverju sinni. NSA leggi kapp á að vera samstarfsaðili annarra fjárfesta frekar en samkeppnisaðili. Sýni aðrir fjárfestar félögum sem séu til skoðunar áhuga sé það til marks um að ekki sé þörf á aðkomu NSA. NSA hafi þannig mikilvægu hlutverki að gegna og muni hér eftir sem hingað til styðja við vænlega sprota og stjórnendur þeirra þannig að íslenskt samfélag njóti góðs af. NSA sé brúin sem liggur frá framúrskarandi hugmynd að félagi með tekjur sem skapi verðmæti fyrir íslenskt samfélag.

Morgunblaðið, 8. febrúar 2023.

Morgunbladid-08-02-2023