Fréttasafn



5. nóv. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Ný mannvirkjaskrá HMS mikilvæg fyrir íbúðauppbyggingu

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, flutti ávarp þegar mannvirkjaskrá var opnuð með formlegum hætti hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, í dag og sagði að biðin hafi verið löng eftir þessum viðburði og óhætt væri að tala um mörg ár í því samhengi. Ýmislegt hafi verið reynt en loksins hafi tekist að þróa lausn sem virki. Hann sagði miklar sveiflur einkenna húsnæðis- og byggingarmarkaðinn og  uppbyggingin gæti verið mun skilvirkari og þar af leiðandi hraðari og hagkvæmari. 

Sigurður sagði þessar sveiflur hafa leitt til þess að síðustu hundrað árin eða svo hafi reglulega þurft að ráðast í átaksverkefni til að bæta úr, nú síðast árið 2019. Umbótavinnan hafi gengið ágætlega, ýmsu hafi þegar verið hrint í framkvæmd en annað gengið hægar. Hann sagði eina af brotalömunum hafa verið skort á yfirsýn. Upplýsingar um hvað er í byggingu á hvaða tíma séu ekki áreiðanlegar sem geri það að verkum að erfiðara sé að gera áætlanir fram í tímann. Þess vegna hafi Samtök iðnaðarins talið íbúðir í byggingu um árabil til að auka yfirsýn á markaðinn. 

Sigurður sagði mannvirkjaskránna vera mikilvægt og nauðsynlegt skref í vegferð umbóta í stjórnsýslu mannvirkjamála sem skipti iðnaðinn gríðarlega miklu máli og að sama skapi almenning á Íslandi með því að leiða til stöðugleika á markaðnum. Hann sagði mannvirkjagskrá veita yfirsýn á markaðinn og vonandi geti Samtök iðnaðarins hætt að telja íbúðir í byggingu þar sem opinberar upplýsingar verði loksins áreiðanlegar.

Fyrsta útgáfa mannvirkjaskrár

Þetta er fyrsta útgáfa mannvirkjaskrárinnar en hún verður í þróun næstu mánuði og er búist við að því að endanleg útgáfa verði tilbúin í júní 2022. Með mannvirkjaskrá fær almenningur, jafnt sem byggingaraðilar, aðgang að nákvæmum og áreiðanlegum gögnum um mannvirki á Íslandi í gegnum uppfletti- og leitarsíðu sem inniheldur helstu upplýsingar um byggingar og byggingaráfanga. Á vefnum verður meðal annars hægt að nálgast ítarupplýsingar um eiginleika, leyfi og úttektir sem hafa verið framkvæmdar á byggingum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra hleyptu heimasíðu mannvirkjaskrár formlega af stokkunum með því að fletta fyrstir uppi í skránni en hópur byggingarfulltrúa og annarra starfsmanna í mannvirkjageiranum fylgdist með. Mannvirkjaskráin inniheldur rauntímaupplýsingar um mannvirki og eiginleika þeirra. Skráin sýnir framboð húsnæðis og það sem er í byggingu á hverjum tíma. Í tilkynningu frá HMS segir að með bættri yfirsýn á húsnæðismarkaði verður hægt að koma í veg fyrir miklar framboðssveiflur með tilheyrandi verðhækkunum á húsnæði auk þess sem mannvirkjaskrá muni auka skilvirkni í eftirliti og stuðla þannig að auknum gæðum og öryggi mannvirkja. 

Mannvirkjaskra.is-7Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Mannvirkjaskra.is-12Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. 

Mannvirkjaskra.is-19Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. 

Mannvirkjaskra.is-13

Mannvirkjaskra.is-10

Mannvirkjaskra.is-4