Fréttasafn



29. des. 2014 Iðnaður og hugverk

Ný skýrsla um þróun og horfur í hársnyrtifaginu

Hársnyrtifagið í tölum – yfirlit yfir fjölda starfandi, starfsemina og þróun greinarinnar

Starfsgreinaráð snyrtigreina gaf út skýrslu í nóvember s.l. með yfirliti um fjölda starfandi, það sem helst einkennir starfsemina og þróun greinarinnar.

Samantektin nær yfir 10 til 15 ára tímabil þar sem starfsemin er skoðuð yfir tíma og sett í samhengi við aðrar stærðir í íslensku efnahagslífi. Þó ná sumar tímaraðir yfir lengra tímabil en aðrar yfir skemmra og veltur það á aðgengi gagna hverju sinni.

Markmiðið er draga fram talnaefni úr faginu og meðhöndla þannig að það megi lesa á nokkuð auðveldan og skýran hátt. Getur þetta nýst starfstéttinni og öðrum við að leggja mat á þróun greinarinnar og þær breytingar sem hafa orðið á þessu tímabili. Verkið var unnið í samvinnu við Félag hársnyrtisveina sem veitti aðgang að gögnum úr félagakerfi auk annarar aðstoðar. Ennfremur var aflað gagna frá Hagstofu Íslands og Vinnumálastofnun.

Helstu niðurstöður eru að hársnyrtifagið hefur enn ekki náð sér á strik eftir þann samdrátt sem varð við efnahagshrunið 2008. Margt bendir til að fagið eigi eitthvað inni og megi búast við viðsnúningi í framtíðinni. Það sem rennir stoðum undir þá ályktun er að færri starfa við fagið en áður, velta greinarinnar á hvern íbúa landsins er lægri en meðaltal síðustu ára og fjöldi hársnyrta á hvern íbúa er með lægra móti og undir meðaltali síðustu ára.

Margt annað sem kemur fram í skýrslunni er athyglisvert. Til að mynda hefur meðalfjöldi starfsmanna á bak við hvern rekstraraðila farið lækkandi. Samhliða því að rekstraraðilum hefur farið fjölgandi síðustu ár hefur starfandi við fagið farið fækkandi. Aldursdreifing þeirra sem starfa við fagið er mjög ólík því sem þekkist á almennum vinnumarkaði þar sem meirihluti hársnyrta kemur úr yngstu aldurshópunum. Þróun síðustu ára hefur þó verið sú að meðalaldur í greininni hefur hækkað. Atvinnuleysi á meðal hársnyrta jókst mikið í lok árs 2008 og byrjun árs 2009 og þótt það hafi gengið eitthvað til baka eftir 2011 er það enn nokkuð hátt í sögulegu samhengi. Athygli vekur að á sama tíma og hársnyrtum fækkar á atvinnuleysisskrá fjölgar ekki í hópi starfandi hársnyrta.

Spá sem birtist í lokakafla skýrslunnar byggir á fjórum sviðsmyndum sem ganga út á afturhvarf til meðaltala áranna á undan. Þar er að finna hugsanlega þróun hársnyrtifagsins á næstu þremur árum og snýr það að fjölda starfandi í faginu á þeim tíma. Sviðsmyndirnar eru ólíkar og spá fyrir um mismunandi þróun en þó nokkuð jákvæðar heilt yfir að líta sem gefur tilefni til bjartsýni fyrir komandi ár í greininni.

Skýrsluna vann Páll Kristbjörn Sæmundsson M.Sc. í fjármálahagfræði.

HÉR  má nálgast skýrsluna.