Fréttasafn



3. maí 2024 Almennar fréttir Félag íslenskra gullsmiða Iðnaður og hugverk

Ný smíði 30 gullsmiða á sýningu í Listasafni Íslands

Baráttan um gullið er heiti sýningar sem er samstarf Listasafns Íslands og Félags íslenskra gullsmiða og er sett upp í tilefni 100 ára afmælis félagsins. Sýningin er í Safnahúsinu við Hverfisgötu 15. 

Smíðisgripir og myndverk eftir Finn Jónsson og Jóhannes Jóhannesson eru þar til sýnis í bland við nýja smíði 30 gullsmiða úr Félagi íslenskra gullsmiða. Sýningin Viðnám er listræn kveikja nýju gripanna þar sem hver og einn gullsmiður vann smíðisgrip út frá verki safneignarsýningarinnar í Safnahúsinu.

Á morgun laugardaginn 4. maí kl. 14.00 verður leiðsögn sýningarstjóra í Safnahúsinu.

Gullsmiðurinn Erling Jóhannesson, einn þeirra sem tekur þátt í sýningunni, sótti sér innblástur í verk Jóns Stefánssonar sem nefnist Sumarnótt og teflir Erling fram karöflu úr silfri sem má sjá á myndinni hér fyrir ofan.

Á vef Listasafns Íslands er hægt að nálgast nánari upplýsingar.