Fréttasafn



12. maí 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samtök fyrirtækja í málm– og skipaiðnaði

Ný stjórn Málms

Ný stjórn var kosin á aðalfundi Málms - samtaka fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði sem fór fram í Húsi atvinnulífsins í gær. Í framboði til meðstjórnenda til tveggja ára voru Ómar Ásbjörn Óskarsson - OHS Verk, Matthías Stephensen - Héðinn og Rannveig Jónsdóttir - FerroZink og voru þau sjálfkjörin. Bjarni Thoroddsen - Stálsmiðjan Framtak, Guðmundur Hannesson - Kælismiðjan Frost, Ingólfur Þór Ævarsson - Marel, Ólafur R. Guðjónsson - Vélsmiðja Ólafs R. Guðjónssonar og Páll Kristjánsson - Slippurinn Akureyri, klára síðara ár af tveimur. Þá klárar Daníel Óðinsson - JSÓ síðara ár af tveimur sem formaður félagsins.

Á fundinum var ársskýrsla Málms flutt þar sem fjallað var um helstu verkefni og störf stjórnar á liðnu starfsári. Ársreikningi og fjárhagsáætlun félagsins voru gerð skil. Um er að ræða óvenju stutt starfsár vegna breytinga á dagsetningum á fundarhaldi aðalfunda síðast liðin tvö ár vegna Covid-19. Samkvæmt 8. gr. lögum félagsins er kveðið á um að aðalfundur skuli haldinn eigi síðar en í lok maí hvers árs. Síðasti aðalfundur fór fram þann 3. nóvember sl. og tók stjórn ákvörðun um að rétta kúrsinn af og halda aðalfund í maí samræmi við lög félagsins. Þrátt fyrir stutt starfstímabil hefur stjórn náð að áorka mörgu og þar ber helst að geta myndun faghóps í kælitækni og fræðslu fyrir félagsmenn.

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum kynnti Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, helstu hagtölur og stöðu málmiðnaðarins.  

IMG_2076

IMG_2068_1683890563460