Fréttasafn



24. okt. 2016 Nýsköpun

Nýsköpun er drifkraftur verðmætasköpunar

Hugvit er óþrjótandi auðlind og nýsköpun er drifkraftur framþróunar, verðmætasköpunar og gjaldeyrisöflunar fyrir land og þjóð. Mikilvægt er að unnið sé stöðugt að fjölbreyttri nýsköpun í öllum atvinnugreinum. Nýsköpun felst í að hrinda hugmyndum í framkvæmd og skapa nýjar lausnir eða bæta það sem fyrir er. Þetta á við um vöru, þjónustu, tækni, aðferðafræði, stjórnskipulag, verklag, leiðir og markaðsstarf. Árangur mælist í aukinni verðmætasköpun, framleiðni, veltu, betri störfum og auknum gjaldeyristekjum sem aftur eru forsendur fyrir aukinni hagsæld og velferð þjóðar. Um það verður kosið í næstu kosningum.

Við ættum að geta sameinast um þá framtíðarsýn að Ísland sé í fremstu röð sem nýsköpunarland á alþjóðlegum markaði, stórt á sérsviðum, með gæði, framleiðni og farsæld að leiðarljósi. Nýsköpun fer fram innan rótgróinna fyrirtækja jafnt sem sprotafyrirtækja og í samstarfi ólíkra starfsgreina um lausnir sem mæta þörfum viðskiptavina. Þróunarsamstarf atvinnulífs og opinberra aðila til að skapa betri lausnir í heilbrigðis-, mennta-, orku- og umhverfismálum fela í sér mikil tækifæri til nýsköpunar.

Nýsköpunarumhverfið þarf að vera aðlaðandi fyrir fólk og fyrirtæki í ólíkum starfsgreinum. Starfsumhverfið þarf að standast samkeppni við þau lönd sem ganga harðast fram í að laða til sín framsækin fyrirtæki og fólk með rétta þekkingu. Við eigum að setja markið hátt og stefna að því að Ísland sé meðal samkeppnishæfustu landa í heiminum í nýsköpun. Þannig sköpum við hagsæld og fjölgum vel launuðum störfum á Íslandi.

Til að ná árangri í þessum efnum þurfa stjórnvöld, Alþingi og atvinnulíf að vinna saman með markvissum hætti til að hraða þeim umbótum í starfsumhverfinu sem nauðsynlegar eru. Þó margt hafi áunnist á undanförnum árum þurfum við að vinna saman af meiri einurð ef við viljum vera í fremstu röð.

Það eru engar takmarkanir á því að nýta hugvitið til að skapa hagsæld og lífsgæði á Íslandi ef réttir hvatar eru skapaðir. Það er hagur okkar allra að nýsköpun fái veglegan sess í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar því öflug nýsköpun er lykillinn að aukinni hagsæld.

Davíð Lúðvíksson, forstöðumaður stefnumótunar og nýsköpunar Samtaka iðnaðarins.

Vísir, 22. október 2016.