Fréttasafn



31. ágú. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Nýsköpun og vöruþróun rauður þráður í rekstri Lýsis

Saga fjölskyldufyrirtækisins Lýsis hf. er samofin sögu þjóðarinnar og fyrirtækið hefur verið leiðandi í nýsköpun og vöruþróun í tugi ára. KATRÍN PÉTURSDÓTTIR er forstjóri Lýsis, en það var afi hennar Tryggvi Ólafsson sem reisti fyrstu verksmiðju Lýsis á Íslandi í janúar árið 1938. Þrátt fyrir að eftirspurn í útlöndum eftir íslenska þorskalýsinu hafi verið upp og ofan á árunum eftir stofnun fyrirtækisins hóf það að framleiða kaldhreinsað þorskalýsi í neytendapakkningum, sem allir landsmenn þekkja, á sjötta áratug síðustu aldar. Um 1960 var fyrstu rannsóknarstofunni komið á laggirnar og reglubundnar rannsóknir á þorskalýsi hófust fyrir alvöru.

Eina samkeppnisforskotið sem við höfum umfram aðrar þjóðir er náttúran og auðlindir hennar.

Eftir að vísindamenn komust svo að því um 1979 að neysla lýsis drægi úr líkum á hjarta og æðasjúkdómum og hefði ýmsa heilsufarslega kosti í för með sér hefur lýsi verið eftirsótt vara mun víðar en á Íslandi. Heimamarkaðurinn hefur þó alltaf gegnt veigamiklu hlutverki í þróun nýrra vara og reynslan af því síðan flutt yfir á aðra markaði. 

Lýsi hf. er nú leiðandi þekkingarfyrirtæki hvað varðar ómega-3 og notkun þess. Salan hefur sífellt aukist undanfarin ár og rannsóknir, þróun og ekki síst nýting hráefna orðið betri með tækninýjungum og auknum umsvifum Lýsis undir forystu Katrínar. „Í upphafi var það lifur sem var aðalhráefnið hjá Lýsi. Þegar við svo vorum að fara í hús og sækja lifur áttuðum við okkur á því að mikið af hráefnunum voru ekki nýtt. Menn voru einungis að nýta kannski 40% af fiskinum, bara flökin – annað fór yfirleitt til bræðslu. Upp úr þessu keyptum við þurrkverksmiðju, fyrir 30 árum eða svo, og hófum útflutning á þurrkuðum hausum, hryggjum og afskurði til Nígeríu,“ rifjar Katrín upp, en Lýsi byggði nýja þurrkverksmiðju á síðasta ári og með henni hafa gæði varanna aukist til muna.

Fremst á heimsvísu í fullnýtingu sjávarafurða 

„Við tökum líka slóg og framleiðum meltu sem við flytjum út í skipsförmum. Ég held að það sé hægt að fullyrða að íslenskur sjávarútvegur sé fremstur á heimsvísu í fullnýtingu sjávarafurða. Þannig sýnum við náttúrunni og auðlindinni virðingu okkar,“ segir Katrín, sem eru umhverfismálin hugleikin. 

Lýsi hf. rekur fimm verksmiðjur allt í allt sem allar fullvinna aukaafurðir úr sjávarafurðum. „Lifrarbræðslu-, meltuvinnslu- og þurrkverksmiðju í Þorlákshöfn, niðursuðuverksmiðjur á Akranesi og í Ólafsvík og svo hreinsunarstöð og pökkun í Reykjavík,“ segir Katrín. 

Alla tíð hefur mikið verið lagt upp úr gæðum í fyrirtækinu. „Enda er verksmiðja Lýsis hf. í Reykjavík eina sinnar tegundar sem hefur lyfjaframleiðsluleyfi. Allar lýsisafurðir fyrirtækisins eru framleiddar samkvæmt stöðlum lyfjaskráa. Við flytjum út vörur okkar til yfir 70 landa og sumir markaðir gera kröfu um að varan sé framleidd undir lyfjaframleiðslustöðlum. Við höfum byggt upp gríðarlega öflug gæðakerfi og kostað þar miklu til,“ útskýrir hún. 

Við erum í beinum samskiptum við fyrirtækin sem sum hver hafa verið í viðskiptum við Lýsi hf. í yfir 60 ár.

 

KatrinLysi_806A8848

Yfir 60 ára viðskiptasambönd 

Líkt og áður segir hafa margar vörutegundir Lýsis náð fótfestu víðar en á Íslandi. En hvernig kemur maður nýrri vöru á markað í útlöndum? Katrín segir vöruþróun tvískipta hjá fyrirtækinu. „Annars vegar er sífellt verið að þróa nýjar vörur fyrir mismunandi markaði en hins vegar er mikil þróunarvinna í vinnslunni sjálfri með það að leiðarljósi að tryggja hreinleika vörunnar og gæði. Þetta er stór þáttur í rekstrinum og má segja að allir starfsmenn komi að þessum málum á einn eða annan veg. Við þurfum að fylgjast mjög vel með mörkuðum og vita hver „trendin“ eru á mismunandi mörkuðum,“ segir hún. 

„Þegar neytendavörurnar eru annars vegar vinnum við með dreifiaðilum á viðkomandi mörkuðum og vöruþróun gjarnan í samstarfi við þá. Þeir sjá svo um að koma vöru á markað í samstarfi við okkur. Við sjáum um hönnun á vörunni og allt auglýsingaefni, til að mynda. Fyrir stórnotendur er það svokölluð „business -to -business“ sala og við erum í beinum samskiptum við fyrirtækin sem sum hver hafa verið í viðskiptum við Lýsi hf. í yfir 60 ár.“

Ég held að það sé hægt að fullyrða að íslenskur sjávarútvegur sé fremstur á heimsvísu í fullnýtingu sjávarafurða. Þannig sýnum við náttúrunni og auðlindinni virðingu okkar.

Náttúran og auðlindirnar okkar samkeppnisforskot 

Lýsi bættist í hluthafahóp Pure North Recycling fyrir nokkru. Um er að ræða eina fyrirtækið á Íslandi sem endurvinnur plast að fullu. „Fjárfesting í plastendurvinnslu byggir á sömu hugsun og vinnsla á aukaafurðum úr sjávarútvegi. Ég lít á plast sem hráefni í annað plast. Það er líka virðing gagnvart náttúrunni að sjá til þess að plastið sé endurunnið en fari ekki til urðunar eða í sjóinn. Þannig er plast frábært efni sem við þurfum að umgangast af virðingu og endurvinna það allt svo hægt sé að nýta það aftur og aftur,“ segir Katrín. 

„Eina samkeppnisforskotið sem við höfum umfram aðrar þjóðir er náttúran og auðlindir hennar. Þar kemur endurnýjanleg orka mjög sterk inn. Það er einmitt hún sem við nýtum í endurvinnslunni á plastinu sem gerir þá endurvinnslu umhverfisvænustu endurvinnslu á plasti í heiminum. Hver vill ekki hafa slíkan stimpil á sinni vöru?“ spyr Katrín og segir nýsköpun gríðarlega mikilvæga íslensku samfélagi og viðskiptalífi. Hætt við að góðar hugmyndir fari í súginn Katrín segir að umhverfi frumkvöðla á Íslandi megi stórlega bæta. „Til dæmis með því að auðvelda þeim aðgengi að fjármagni og stuðningi við þróun. Eins að efla samband milli menntastofnana og atvinnulífs og þannig koma góðum hugmyndum í farveg.“ Hún segir samstarfsaðila og fjármagn það mikilvægasta fyrir frumkvöðla sem eru að hefja sína vegferð. „Annars er hætt við því að fólk gefist upp á miðri leið og þá geta góðar hugmyndir farið í súginn.

VIÐTAL Ólöf Skaftadóttir

LJÓSMYNDIR Baldur Kristjánsson

Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_