Fréttasafn



29. okt. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samtök upplýsingatæknifyrirtækja Starfsumhverfi

Ónýtt tækifæri í upplýsinga- og fjarskiptatækniiðnaði

Í nýrri greiningu SI kemur fram að grein upplýsinga- og fjarskiptatækniiðnaðar (UT) hafi vaxið hratt hér á landi á undanförnum árum og standi atvinnugreinin undir talsverðum hluta landsframleiðslunnar. Greinin hefur byggst að stórum hluta upp á útflutningi en útflutningsverðmæti hennar eru veruleg og hafa farið vaxandi á undanförnum árum. Útreikningar gefa til kynna að verðmætasköpun og launakostnaður á hvern launþega í upplýsingatækni sé heilt yfir hærri en í öðrum atvinnugreinum. Þrátt fyrir að greininni hafi vaxið fiskur um hrygg á liðnum árum og hún hlotið aukið vægi á innlendum atvinnumarkaði er umfang greinarinnar hér á landi ennþá lítið í samanburði við önnur Evrópuríki. Ísland stendur skör neðar en þau lönd sem við berum okkur helst saman við þegar kemur að útflutningsverðmæti, hlutdeild í landsframleiðslu og fjölda einkaleyfisumsókna. Þar liggja tækifærin og þau þarf að grípa.

Tækifæri er til að efla upplýsinga- og fjarskiptatækniiðnaðinn og skapa hér á landi verðmæti til jafns við það sem gengur og gerist annars staðar í Evrópu. Hversu vel tekst til í þeim efnum hvílir m.a. á samkeppnishæfni greinarinnar til framtíðar litið auk þess sem skapa þarf hvata fyrir íslensk upplýsinga- og fjarskiptatæknifyrirtæki til að tryggja hugverkarétt sinn með skráningu einkaleyfa hér á landi.
Það er mat Samtaka iðnaðarins að frekari vöxtur sé mögulegur og að til staðar sé ónýtt tækifæri til atvinnusköpunar og öflunar gjaldeyristekna í íslenskum upplýsinga- og fjarskiptatækniiðnaði. Í ljósi aðstæðna í hagkerfinu vegna COVID-19 þarf að hafa hraðar hendur og móta farveg fyrir áframhaldandi vöxt greinarinnar og frekari fjölgun verðmætra starfa.

  • Fjöldi starfandi í UT jókst um 24% á árunum 2010-2020. Launagreiðendum í UT fjölgaði um 57% á sama tímabili.
  • Velta fyrirtækja í UT jókst um 70% á árunum 2010-2019 á verðlagi ársins 2020.
  • Hlutdeild UT í landsframleiðslu jókst frá 2,9% í 3,4% á árunum 2010-2018.
  • Útflutningur UT jókst um 87% á árunum 2013-2018.

  •  Atvinnugreinin skapar verðmæt störf og er framleiðni almennt meiri en í einkageiranum. Að sama skapi er launakostnaður á hvern launþega á ári hærri en heilt yfir innan einkageirans.
  • Íslendingar sóttu aðeins um 1,7 UT einkaleyfi á ári að meðaltali árin 2011-2017 eða um 5 einkaleyfi á hverja milljón íbúa á meðan evrópska meðaltalið er 19.

Mikil fjölgun fyrirtækja og starfandi

Fyrirtækjum í UT fjölgaði um 57% á árunum 2010-2020 eða um 4,5% að meðaltali á milli ára á tímabilinu. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2020 voru um 620 launagreiðendur í UT og er það fjölgun um 1,5% frá sama tíma í fyrra. Það gefur til kynna að hægt hafi á fjölgun fyrirtækja í greininni og hefur fjölgunin milli ára ekki verið minni frá 2009. Nú eru ríflega 4% allra fyrirtækja skráð í greininni og hefur þeim fjölgað umfram það sem gerðist í einkageiranum í heild á sama tíma. Vöxtur greinarinnar hefur á liðnum árum hækkað hlutdeild UT af einkageiranum um 0,7 prósentustig, úr 3,7% árið 2010 í 4,4% í ársbyrjun 2020.

Fjöldi starfandi í greininni hefur að sama skapi aukist nokkuð, eða um 24% yfir sama tímabil. Þó hefur hlutdeild starfandi í UT farið lækkandi frá árinu 2011. Nú eru um 6.000 starfandi í greininni en þeim hefur fækkað lítillega frá árinu 2018. Fyrir það hafði verið samfelld fjölgun frá árinu 2010.

Fjoldi-starfandi_1603955777239
Fjoldi-launagreidenda

 

Hér er hægt að nálgast greiningu SI í heild sinni.