Fréttasafn



2. des. 2022 Almennar fréttir Mannvirki Mannvirki – félag verktaka Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Orkuskipti í stærri vinnuvélum gerast ekki nema með ívilnunum

Sigthor-formadur-Mannvirkis„Tæknin er að verða til en hún er ekki enn orðin aðgengileg fyrir verktaka,“ segir Sigþór Sigurðsson, formaður Mannvirkis – félags verktaka í SI og framkvæmdastjóri Colas, í frétt Morgunblaðsins þar sem fjallað er um orkuskipti í stærri vinnuvélum. Að mati Sigþórs eru opinberir verkkaupar að fara fram úr sér með því að gera kröfur um að verktakar noti hreinorkuvinnuvélar í dag. Hann bendir á að hreinorkutæknin sé rétt að detta inn á vinnuvélamarkaði og tækin séu enn mjög dýr. Sigþór segir í fréttinni að hefja þurfi samtal við stjórnvöld um það hvort hægt sé að fá ívilnanir, að minnsta kosti á meðan orkuskiptin ganga yfir. Finna þurfi hvata sem virka í stað þess að skella fram einhliða punktakerfum. Sigþór segir í fréttinni að fólk þekki vel ívilnanir sem veittar voru vegna innleiðingar rafbíla þar sem slegið var af opinberum gjöldum. „Vilji ríkið keyra hratt í gegn orkuskipti í dýrum vinnuvélum þá verður það að horfast í augu við að það gerist ekki nema með einhvers konar ívilnun eða niðurgreiðslu.“ 

Hið opinbera komið fram úr sér með kröfu um notkun hreinorkuvinnuvéla

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að Mannvirki hafi nýlega verið með ráðstefnu þar sem m.a. seljendur vinnuvéla kynntu það sem er í boði af hreinorkuvinnuvélum. Eins töluðu fulltrúar opinberra verkkaupa um þær kröfur sem farið er að gera í opinberum útboðum um hreinorkutæki. Sigþór telur að þetta sé dæmi um þegar hið opinbera er komið lengra en fyrirtækin og almenningur, þetta geti litið vel út á blaði en veruleikinn sé ekki alveg í samræmi við þetta. 

Verkkaupar og verktakar þurfa að tala saman áður en lengra er haldið

Sigþór segir í Morgunblaðinu að t.d. Reykjavíkurborg gefi punkt fyrir hreinorkutæki í verkefni. Hugmyndin sé góð því punktakerfið sé hvatakerfi sem veiti möguleika á að vera með örlítið hærra verð en verða samt fyrir valinu. Landsvirkjun sé einnig með hvatakerfi sem stuðli að því að nota sem minnsta olíu. Umbun fylgi ef olíueyðsla sé minni en áætlað var en refsing verði hún meiri. Sigþór segir í frétt Morgunblaðsins að hvatar séu það sem muni keyra orkuskiptin í vinnuvélum áfram en verkkaupar og verktakar þurfi að tala saman áður en lengra er haldið. 

Rafknúnar vinnuvélar tvöfalt og þrefalt dýrari en hefðbundin tæki

Sigþór segir í Morgunblaðinu að rafknúnar minni vinnuvélar séu byrjaðar að koma á markað. „Því miður eru þær tvöfalt og jafnvel þrefalt dýrari en hefðbundin díselknúin tæki. Við hjá Colas föluðumst eftir litlum rafknúnum gangstéttavaltara, þriggja tonna tæki. Hann kostar um fimm milljónir í hefðbundinni díselútgáfu en tólf milljónir rafknúinn. Það gefur auga leið að það er mjög þungt fyrir verktaka að endurnýja tækjaflota sinn, jafnvel bara smátækin, með hreinorkutækjum á meðan verðið á þeim er svona hátt.“

Verktakafyrirtækin með metnaðarfull losunarmarkmið fyrir 2030

Sigþór segir í fréttinni að verktakafyrirtækin séu flest mjög metnaðarfull hvað varðar umhverfismál og flest hafi sett losunarmarkmið fyrir árið 2030 og ætli að ná því. Það muni m.a. gerast með innleiðingu raf- og vetnisknúinna véla. Talið sé að vetnisknúnar vinnuvélar komi á markað eftir um tvö ár. Þá séu fyrstu rafknúnu trukkarnir að líta dagsins ljós en talið sé að í framtíðinni verði þeir bæði vetnis- og rafknúnir. Þannig hyggist verktakafyrirtækin ná losunarmarkmiðunum.

Morgunblaðið / mbl.is, 2. desember 2022.

Morgunbladid-02-12-2022