Fréttasafn



22. ágú. 2023 Almennar fréttir

Óskað eftir ábendingum fyrir Hönnunarverðlaun Íslands

Opnað hefur verið fyrir ábendingar til Hönnunarverðlauna Íslands 2023 sem afhent verða 9. nóvember í Grósku. Verðlaunin verða veitt í tíunda sinn í ár og í tilefni af því hefur verðlaunaflokkum verið fjölgað í þrjá undir heitunum Vara // Staður // Verk. Hægt er að senda inn ábendingar til miðnættis 6. september á vef Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs: https://www.honnunarmidstod.is/keppnir

Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2023 sem eru hvor tveggja heiðurs- og peningaverðlaun. Að auki verða veitt Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands og viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun sem er viðurkenning veitt fyrirtæki sem hefur hönnun og arkitektúr að leiðarljósi í starfsemi sinni til að auka gæði, verðmætasköpun og samkeppnishæfni. Öll fyrirtæki sem starfa á Íslandi koma til greina. 

Hönnunarverðlaun Íslands verða veitt hönnuði, arkitekt, hönnunarteymi eða stofu fyrir framúrskarandi nýleg verkefni. Við val á verðlaunahöfum er verið er að leita að verkefnum sem skara fram úr og geta staðið sem fulltrúar þess besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs. Verkefnin þurfa að endurspegla gæði og vera áhrifarík, fela í sér frjóa hugsun, snjalla lausn, vandaða útfærslu, áherslu á fagurfræði og fagmennsku í vinnubrögðum. Einnig er horft til hvort verkefnin séu notendavæn, nýskapandi og hafi jákvæð áhrif á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni.

Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.

Myndin hér fyrir ofan er frá afhendingu viðurkenningar fyrir bestu fjárfestingu í hönnun sem Fólk Reykjavík hlaut á síðasta ári. Mynd: Aldís Pálsdóttir.