Fréttasafn



23. okt. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Óskýrt gildissvið og of langur afgreiðslufrestur

Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu fagna markmiði frumvarps til laga um tekjufallsstyrki en vilja koma á framfæri athugasemdum. Í umsögn samtakanna kemur fram að gildissvið sé óskýrt. Eins og frumvarpið líti út núna taki það ekki til lítilla fyrirtækja heldur eingöngu einyrkja og reksturs þeirra. Hér sé því verið að skilja stóran hóp lítilla fyrirtækja eftir, hóp sem hafi orðið útundan í úrræðum ríkisstjórnarinnar hingað til, t.d. veitingastaði. Ef úrræðið eigi að ná til lítilla fyrirtækja, sem að mati samtakanna væri hið eina rétta, væri nær að miða skilyrðin um fjölda launamanna við skilgreiningu laga um ársreikninga, nr. 3/2006 á örfyrirtækjum. Þannig myndi úrræðið takmarkast við hámark 9 launamenn og taka á vanda fleiri rekstraraðila sem sannarlega þurfa aðstoð. 

Þá gera samtökin athugasemdir við afgreiðslufrest sem þau telja vera of langan. Styrknum sé ætlað að létta á aðkallandi greiðsluflæðisvanda og ef hann berist of seint komi hann að litlu gagni. Fresturinn sé sérstaklega langur í ljósi þess að Skatturinn geti kallað eftir frekari rökstuðningi og gögnum sem geti þá lengt afgreiðslu umsóknar enn frekar. Samtökin leggja til að afgreiðslufresturinn verði styttur í einn mánuð.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.