Fréttasafn



2. nóv. 2023 Almennar fréttir Menntun

Óviðunandi að hafi þurft að hafna nærri 600 sem sóttu um iðnnám

„Krafa iðnaðarins er alveg skýr,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt Morgunblaðsins um nýja greiningu SI um iðnnám. Það sé óviðunandi að á sama tíma og metfjöldi, eða nærri 1.200 manns, hafi útskrifast úr iðnnámi á síðasta skólaári hafi þurft að hafna nærri 600 nemendum sem sóttu um iðnnám í haust vegna skorts á fagmenntuðum kennurum og viðeigandi húsnæði eða tækjabúnaði. Úr þessu verði að bæta.

Mistekist að sinna mannauðsþörf

Í fréttinni kemur fram að það sé mat SI að menntakerfi landsins hafi mistekist að sinna þeirri mannauðsþörf sem hlotist hefur af vexti iðnaðarins á síðustu árum, stórum hluta þarfarinnar hafi verið mætt með innfluttu vinnuafli en meira þurfi til. Ljóst sé að skortur á vinnuafli hafi verið dragbítur á vöxt iðnaðarins síðustu ár og tækifærum til aukinnar verðmæta sköpunar greinarinnar hafi verið fórnað vegna skorts á vinnuafli með rétta færni. 

Fjölgun útskrifaðra úr iðnnámi en vantar fleiri

Þá segir í fréttinni að á síðustu þremur skólaárum hafi í heild 2.940 útskrifast úr iðnnámi sem sé sögulegt met. Á síðustu fimm árum, eða frá skólaárinu 2017-2018, hafi brautskráðum úr iðnnámi fjölgað um 70%. Samtök iðnaðarins segi þetta ánægjulegt enda sé fjölgun iðnmenntaðra gríðarlega mikilvæg fyrir samkeppnishæfni Íslands. Ástæður þess að brautskráðum úr iðnnámi fjölgi séu að mati samtakanna nokkrir samverkandi þættir. Síðasta ríkisstjórn með Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra í fararbroddi hafi lagt ríka áherslu á að fjölga iðnmenntuðum á vinnumarkaði með aðgerðum og umbótum tengdum iðnnámi. Að mati SI voru þetta umfangsmestu breytingar sem sést hafa á umgjörð iðnnáms hér á landi um áratugaskeið og eigi sannarlega þátt í því að nú sé slegið met í fjölda útskrifaðra úr iðnnámi. En þrátt fyrir fjölgun útskrifaðra úr iðnnámi undanfarið sé enn umtalsverður skortur á fólki með þá menntun. „Fyrirsjáanlegt er að mikil þörf er á næstu árum fyrir nýliðun. Meðalaldur iðnmenntaðra er í sumum greinum hár og margir munu því hverfa af vinnumarkaði á næstu árum. Mennta þarf fólk til þess að taka við og stuðla að eðlilegri endurnýjun.“ 

Morgunblaðið, 2. nóvember 2023.

Morgunbladid-02-11-2023

Morgunbladid-02-11-2023_2