Fréttasafn



29. ágú. 2018 Almennar fréttir

Óvissa lykilatvinnuvega getur haft neikvæð áhrif á hagkerfið

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að neikvæðar fréttir af stöðu efnahagsmála geti dregið úr einkaneyslu og fjárfestingu heimila og fyrirtækja í kjölfar upplýsinga um erfiða stöðu íslensku flugfélaganna Icelandair og Wowair.

Rætt er meðal annarra við Ingólf Bender, aðalhagfræðing Samtaka iðnaðarins, sem segir að aukin óvissa um stöðu lykilatvinnuvega þjóðarbúsins geti haft neikvæð áhrif á hagkerfið með því að hafa áhrif á væntingar. „Er það sérstaklega ef þessi óvissa er langvarandi og umfang greinarinnar mikið í t.d. gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins. Væntingar heimilanna um framtíðartekjur geta breyst við þetta og það síðan haft áhrif á neysluhegðun þeirra og fjárfestingaráform.“

Fyrirtæki haldi að sér höndum í fjárfestingum

Ingólfur segir að hið sama gildi um fyrirtæki, sem eru þá líklegri en ella til að halda að sér höndum í t.d. fjárfestingum um stund, a.m.k. meðan óvissuástandið varir. „Væntingar geta líka haft skjót áhrif í gegnum fjármálamarkað þar sem þær hreyfa við eignaverði, s.s. verði verðbréfa og gengi krónunnar. Við sáum t.d. tiltölulega mikil viðbrögð á hlutabréfamarkaði í dag [í gær]. Við höfum hins vegar séð minni viðbrögð á gjaldeyrismarkaði. Krónan hefur ekki gefið eftir, sem gæti að vissu leyti verið styrkleikamerki fyrir íslenskt efnahagslíf. Á móti kemur að gjaldeyrismarkaður er ekki mjög virkur með tilliti til spákaupmennsku,“ segir Ingólfur í Morgunblaðinu í dag.

Morgunblaðið / mbl.is, 29. ágúst 2018.