Fréttasafn



27. mar. 2019 Almennar fréttir

Óvissuástand í lengri tíma hefur neikvæð áhrif á hagvöxt

Í umfjöllun Morgunblaðsins um WOW air í dag er meðal annars rætt við Ingólf Bender, aðalhagfræðing Samtaka iðnaðarins, sem telur að flugfargjöld þurfi líklega að hækka. „Vandræði flugfélaganna endurspegla það að hluta að verð á flugfargjöldum hefur verið mjög lágt og samkeppnin mikil á flugmarkaði við félög með hagstæðari kostnaðaruppbyggingu en þau íslensku. Vandræði íslensku flugfélagana í þessu umhverfi eru sjálfstætt áhyggjuefni fyrir okkur sem ferðamannastað í ljósi þess hvað þessi félög eru umfangsmikil í flutningi farþega til og frá landinu. Flugfargjöld þurfa líklega að hækka en það myndi eflaust hafa neikvæð áhrif á ferðamannastrauminn hingað.“ 

Þá segir Ingólfur um væntingar á markaði: „Fyrir það fyrsta er óvissa til þess fallin að fjárfestar og lánveitendur haldi frekar að sér höndum og geri hærri ávöxtunarkröfu. Þetta dregur úr umfangi og vexti fjárfestinga í hagkerfinu. Nokkuð hefur dregið úr atvinnuvegafjárfestingu undanfarið en aukning hefur verið í íbúðafjárfestingu og fjárfestingu hins opinbera. Það myndi því hafa jákvæð áhrif að draga úr þessari óvissu. Langvarandi óvissa dregur úr vextinum. Þetta hefur líka áhrif á einkaneyslu heimila. Þau eru enda líklegri til að halda að sér höndum þegar óvissa er um framtíðartekjur og eignir. Þegar svona óvissuástand varir í lengri tíma getur það því haft neikvæð áhrif á hagvöxt.“ 

Jafnframt segir Ingólfur í Morgunblaðinu aðspurður ekki hægt að fullyrða að búið sé að verðleggja óvissu á eignamörkuðum. „Óvissan er enda búin að vera svo sveiflukennd og síbreytileg frá degi til dags. Það er því ekki hægt að segja að búið sé að verðleggja hana. Ný tíðindi berast á hverjum degi, nánast.“

Morgunblaðið, 27. mars 2019.