Fréttasafn



25. jan. 2024 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Ráðherrar sendi skýr skilaboð um að gullhúðun verði ekki liðin

Í leiðara Morgunblaðsins er fjallað um íþyngjandi regluverk. Þar er vitnað til nýrrar greiningar SI á regluverki um starfsemi iðnfyrirtækja og viðtals við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, sem birt var í ViðskiptaMogganum í gær. Í niðurlagi leiðarans segir að óhætt sé að segja að allt hljómi þetta illa og bendi til að þeir sem landsmenn kjósa til að setja reglurnar hér á landi hafi misst tökin í hendur ókjörinna embættismanna eða stofnana sem hafi gleymt sér í óhóflegum afskiptum og ofstjórn sem skaði fyrirtæki og almenning í landinu. 

Einnig segir leiðarahöfundur Morgunblaðsins að það sé ekki þar með sagt að öll von sé úti og að þróunin verði óhjákvæmilega hin sama næstu áratugina eins og þann síðasta. Sigurður Hannesson segi að ákveðin vitundarvakning hafi átt sér stað, „ekki síst meðal stjórnmálamanna. Þingmenn eru meðvitaðri um þetta en áður og átta sig á því að þetta hefur afleiðingar.“ Leiðarahöfundur segir að þetta sé jákvætt og þá megi ætla að ráðherrar séu sömuleiðis betur meðvitaðir um vandann en áður, sem geti orðið til þess að úr gullhúðunaráráttunni dragi og regluverkið verði í það minnsta ekki meira íþyngjandi en það sem framleitt sé í Brussel. „En til að þetta takist þurfa ráðherrar að senda embættismönnum sínum og undirstofnunum skýr skilaboð um að gullhúðun verði ekki liðin. Verði þau skilaboð óskýr – eða jafnvel engin – er vonlaust að nokkuð breytist.“

Morgunblaðið, 25. janúar 2024. 

Morgunbladid-25-01-2024_3