Fréttasafn



25. ágú. 2015 Iðnaður og hugverk

Radiant Games gefur út forritunarleikinn Box Island

Fyrsti íslenski menntaleikurinn af þessu tagi

Leikurinn er fyrsti íslenski spjaldtölvuleikurinn sem kynnir forritun fyrir krökkum. Vignir Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Radiant Games segir að það skipti sköpum fyrir krakka á fyrstu árum grunnskólans að afþreying af þessu tagi sé á móðurmálinu.

„Þrautirnar í leiknum geta verið snúnar og reynir þá vel á rökhugsunina hjá krökkunum. Við sáum það strax í notendaprófunum að það getur reynst erfitt að þurfa samhliða því að þýða enskuna yfir á íslensku. Leikurinn ætti því að vera mikil búbót hér á landi.“

Vita meira en þau halda

Þrátt fyrir að spilun í leiknum snúist um að beita grunngildum forritunar, þá er það ekki tekið fram gagnvart krökkunum meðan þau spila. Vignir segir að það sé mjög áhrifamikið að horfa á krakka spila leikinn og öðlast grunnskilning í forritun, án þess að þau endilega átti sig á því sem þau hafa lært.

„Það er mjög gefandi upplifun að fylgjast með því gerast. Þegar við spyrjum marga sem eru búnir að prófa hvað forritun sé, þá spyrja þau á móti, Hvað er forritun?“ segir Vignir.

Vignir segir að það sé í höndum aðstandenda hvernig leikurinn er settur í samhengi við frekari skilning á forritun.

„Fyrir krakkana skiptir það mestu máli að þau hafi gaman og njóti sín. Við setjum það svo í hendur foreldra og skóla að taka skilninginn á forritun á næsta stig.“ segir Vignir.

Krakkar fá kynningu á forritun alltof seint

Með útgáfunni skapast frábært tækifæri til að vekja upp umræðuna um mikilvægi forritunar fyrir upprennandi kynslóðir, atvinnulífið og samfélagið í heild.

„Boðskapurinn er ekki sá að allir eigi að verða forritarar þegar þeir verða eldri. Þetta snýst um mikilvægi þess að við skiljum hvernig heimurinn í kringum okkur virkar í dag og hvernig hann mun virka í framtíðinni.“ segir Vignir, og við bætir við að forritun sé dulin fyrir mörgum.

„Forritun er í raun leið okkar til þess að eiga samskipti við tölvur. Rétt eins og við notum tungumál til að tala, eða hljóðfæri til að flytja tónlist, þá notum við forritunarmál til að forrita og tjá okkur við tölvur. Forritun er því verkfæri til þess að örva sköpunargleðina og búa til nýja hluti í hinum stafræna heimi.“

Forritunarkunnátta nauðsynleg fyrir störf framtíðarinnar

Rannsakendur við Oxford háskóla spá því að 45% af öllum störfum í Bandaríkjunum verði gerð sjálfvirk af tölvum á næstu 20 árum. Má færa rök fyrir því að Ísland verði engin undantekning í þeirri þróun.

„Þeir krakkar sem innritast í grunnskóla nú í haust munu ljúka við framhaldsskólanám í kringum árið 2030. Á þeim tímapunkti munu gífurlega mörg störf vera unnin af einstaklingum sem hafa skilning á forritun og hvernig tölvur raunverulega virka. Ætlum við virkilega að láta þessa krakka fara í gegnum grunnskólann án þess að fá góða kynningu á forritun?“

Um Radiant Games

Radiant Games var stofnað í maí 2014. Sama ár hlaut fyrirtækið verkefnisstyrk Tækniþróunarsjóðs upp á 12,5 milljónir króna árlega til þriggja ára [1], ásamt því að lenda í 2.sæti af 376 viðskiptahugmyndum í frumkvöðlakeppninni Gullegginu [2].

Markmið Radiant Games er að búa til skemmtilega leiki fyrir krakka sem kveikja áhuga þeirra á forritun. Stofnendur Radiant Games segjast sjálfir vera dæmi um einstaklinga sem fengu kynningu á forritun alltof seint á lífsleiðinni. Þeir tóku eftir því að ekki hafði mikið breyst frá því að þeir ólust upp og ákváðu því að gera eitthvað í málinu.

 

Stofnendur fyrirtæksins eru Guðmundur Valur Viðarsson, Haukur Steinn Logason, Vignir Örn Guðmundsson og Þorgeir Auðunn Karlsson. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á www.radiantgames.is.


[1] http://rannis.rhi.hi.is/AllocatedFunds/meirasida.php?a=tthsj&b=1321470611

[2] http://www.vb.is/frettir/102810/