Fréttasafn



17. okt. 2019 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Ríkið komi á virkari raforkumarkaði

Við leggjum einnig til að ríkið komið að því að koma hér á virkari raforkumarkaði. Nú og við erum líka að hvetja ríkið til að koma að málaflokknum með grænum sköttum sem yrði þá hvatning til fyrirtækjanna að gera enn betur. Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, meðal annars í viðtali við Heimi Má Pétursson í fréttum Stöðvar 2 að loknum fundi Samtaka iðnaðarins í Hörpu í gær þar sem afhent var ný skýrsla samtakanna um íslenska raforkumarkaðinn og kynntar tillögur að því að auka samkeppnishæfni á raforkumarkaði þar sem meðal annars kemur fram að skilið verði að fullu á milli Landsvirkjunar og Landsnets og fyrirtækjum verði heimilað að selja aftur inn á raforkukerfi umfram orku.

Í fréttinni var einnig rætt við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem sagði vaxandi áhuga á vindorku. „Við erum að vinna stíft í því að klára að svara þeim spurningum um það hvernig regluverkið á að líta út, hvernig á með umsóknir og slíkt að fara. Svo erum við að tala um að jafna dreifikostnað raforku sem mér finnst mikið þjóðþrifamál og sanngirnsmál.“ Hún segir að Ísland sé nú þegar samkeppnishæft í raforkuverði eins og sjá megi á fjölda álvera og vaxandi áhuga á byggingu gagnavera í landinu. Það hafi aldrei verið gengið eins langt og nú að skilja að Landsvirkjun og Landsnet en bæta þurfi dreifikerfið. „Það hefur ekki gengið nægilega vel að byggja upp flutningskerfi raforku en við vitum alveg að það eru ákveðnar framkvæmdir sem ganga þokkalega núna eins og Kröflulína en það eru aðrar línur sem eru mjög mikilvægar í þeim efnum.“ Það sé hægt að auka samkeppni í raforku án þess að selja eignir ríkisins. „Við erum ekki að fara að selja nein orkufyrirtæki sem eru í dag í ríkiseigu og ekki heldur hvorki Landsnet né einhverjar dreifiveitur. Það er ekkert slíkt á dagskrá.“

Á vef Vísis er hægt að horfa á fréttina.

Stod2-16-10-2019

Stöð 2, 16. október 2019.