Fréttasafn



1. júl. 2022 Almennar fréttir Félag ráðgjafarverkfræðinga Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Ríkið sogar til sín sérfræðinga frá verkfræðistofunum

Rætt er við Reyni Sævarsson, formann Félags ráðgjafarverkfræðinga, í forsíðufrétt Fréttablaðsins um nýja könnun sem fyrirtækið Outcome framkvæmdi fyrir Samtök iðnaðarins meðal stjórnenda íslenskra verkfræðistofa, en hún sýnir að aukin sérfræðivinna innan opinbera geirans hafi dregið úr vexti einkafyrirtækja í greininni á síðustu tólf mánuðum. Yfirskrift fréttarinnar er Ríkið sogar til sín sérfræðinga af verkfræðistofum landsins

Ríkið hefur tekið fram úr einkageiranum í launakjörum sem eru í boði

Í Fréttablaðinu segir að ríkisstofnanir hér á landi hafi á síðustu árum leitt launaþróun hjá sérfræðigreinum á borð við verkfræði og eiga einkareknar stofur orðið erfitt með að keppa við stofnanirnar um starfsfólk. „Sú var tíðin að verkfræðingar hjá ríkinu sættu sig við öruggari störf fyrir lægri laun en tíðkuðust á almennum markaði, en núna hefur ríkið tekið fram úr einkageiranum í þeim launakjörum sem eru í boði,“ segir Reynir í Fréttablaðinu. Hann segir þessa þróun hafa byrjað nokkrum árum eftir hrun þegar stofnanir fengu aukið fjármagn eftir mögru árin á undan, en þá hafi opinberi geirinn byrjað að stefna verkefnum inn á við. „Núna auglýsa ríkisstofnanir mánaðarlega eftir verkfræðingum og öðrum sérfræðingum til starfa innan sinna raða.“ 

Verkfræðistofurnar verða af sínu reynslumestu sérfræðingum

Þá segir í Fréttablaðinu að niðurstöður könnunarinnar bendi til þess að sakir fyrrgreindrar þróunar verði framboð af sérmenntuðu vinnuafli takmarkandi þáttur fyrir vöxt einkafyrirtækja í greininni á næstu misserum. „Þetta er bagalegt fyrir verkfræðistofur landsins, sem verða af sínum reynslumestu sérfræðingum og þurfa eiginlega að byrja upp á nýtt með nýútskrifuðu fólki,“ segir Reynir, sem segir þetta ekkert spara þegar upp er staðið fyrir ríkið, en samfélagið verði af miðlægri þjónustu sérfræðinga fyrir vikið. Hann segir þetta draga úr krafti og vaxtargetu stofanna og nefnir sem dæmi Eflu, sem hafi flutt út verkvit fyrir tuttugu milljarða frá árinu 2009, en sú fjármunamyndun sé í hættu vegna spekileka sérfræðinga í faðm ríkisins.

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 1. júlí 2022.

Frettabladid-01-07-2022