Fréttasafn



28. mar. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Ríkir mikil óvissa í kvikmyndagreininni

„Það ríkir mikil óvissa í kvikmyndagreininni vegna þeirra álitamála sem lögð eru til grundvallar í lögfræðiálitinu,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, í Fréttablaðinu í dag og vísar þar til álits sem unnið var fyrir SI og Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, SÍK. Fram kemur að Samtök iðnaðarins hafi átt fund með Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, síðastliðinn þriðjudag. „Við vonumst til að málið fari að skýrast á næstu dögum og vikum þar sem það veldur nú þegar skaða.“ 

Fresta tökum á sjónvarpsþáttaséríu

Í fréttinni kemur fram að tökur á sjónvarpsþáttaseríunni Ráðherranum með Ólafi Darra Ólafssyni í aðalhlutverki séu í uppnámi og ástæðan sögð samningsskilmálar RÚV við Sagafilm, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Sömu heimildir hermi að RÚV vilji ekki endurskoða skilmálana. Þá kemur fram að hefja átti tökur í næstu viku en því hafi verið frestað fram yfir páska. 

Jafnframt segir að samkvæmt lögfræðiálitinu stangist skilmálar RÚV gagnvart sjálfstæðum framleiðendum á við reglur um Evrópustyrki og reglur um endurgreiðslur á Íslandi. RÚV hafi breytt skilmálunum haustið 2017 og hafi þeir verið komnir inn í fjölmarga samninga í fyrravor. Tilgangurinn með breytingunni sé að RÚV fái stöðu meðframleiðanda og fái þá hagnað ef svo fer að sjónvarpsefni verður selt til aðila á borð við Netflix. Í lögfræðiálitinu segi að RÚV eigi að veita styrki en ekki eignast hlut í verki til að geta hagnast á því.  

Fréttablaðið / VísirFrettabladid.is / 28. mars 2019.