Fréttasafn



31. ágú. 2021 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Rót vandans er skortur á byggingarlóðum

Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, í Morgunblaðinu þar sem fjallað er um að húsnæðisliðurinn vegi áfram þungt í verðbólgunni og lóðaskortur sé meginskýring á hækkandi verði íbúðaverðs. Ingólfur  segir síðustu talningu benda til að of fáar íbúðir séu í smíðum til að anna eftirspurn en Samtök iðnaðarins birta reglulega talningu á nýjum íbúðum í smíðum. Nýjasta talning hafi sýnt að íbúðum í byggingu væri að fækka og sérstakt áhyggjuefni hversu fáar væru á fyrstu byggingarstigum. Horft eitt til tvö ár fram í tímann sé því útlit fyrir áframhaldandi ójafnvægi – að framboð nýrra íbúða verði áfram minna en eftirspurn á höfuðborgarsvæðinu. Nafnverð íbúða muni að óbreyttu hækka áfram. „Seðlabankinn hefur ráðist í aðgerðir til að tempra eftirspurnina. Við hjá Samtökum iðnaðarins teljum hins vegar að fremur hefði verið tilefni til að stuðla að auknu framboði. Rót vandans er skortur á byggingarlóðum og er ábyrgðin í þeim efnum hjá sveitarfélögunum.“

Morgunblaðið, 31. ágúst 2021.