Fréttasafn



11. sep. 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Samdráttur í veltu bendir til minni umsvifa á næstunni

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í frétt Morgunblaðsins að blikur hafi verið á lofti allt síðasta ár en samdráttur mælist nú í veltu hjá arkitekta- og verkfræðistofum sem gefi vísbendingu um hvað sé fram undan fyrir byggingariðnað og mannvirkjagerð: „Arkitektar og verkfræðingar eru fremstir í röðinni þegar kemur að verklegum framkvæmdum í byggingariðnaðinum, svo það má segja að þetta sé kanarífuglinn í kolanámunni. Samdráttur í veltu hjá arkitekta- og verkfræðistofum eins og núna bendir til þess að það verði minni umsvif á næstu mánuðum og árum heldur en verið hefur. Því miður er það í takt við okkar málflutning undanfarna mánuði um að það muni heldur draga úr umsvifum.“

Vísbendingar um samdrátt hafa verið staðfestar

Í frétt Morgunblaðsins segir að mikill viðsnúningur hafi orðið í þessum greinum á aðeins einu ári, um mitt ár í fyrra mældist ríflega 16% vöxtur í veltu frá sama tíma árinu áður en nú mælist ríflega 1% samdráttur.  Þá segir að almennt sé mat aðila innan þessara greina að eftirspurn einstaklinga og fjárfesta sem tengjast íbúðauppbyggingu sé að dragast verulega saman. Einnig kemur fram í fréttinni að þetta komi sérstaklega illa niður á minni og meðalstórum arkitekta- og verfræðistofum sem treyst hafi á verkefni í íbúðauppbyggingu og bendi til þess að meiri samdráttur sé fram undan. Einnig hafi verið samdráttur í innviðafjárfestingum hins opinbera en stöðugri gangur hafi verið í verkefnum fyrir atvinnuvegi á borði við ferðaþjónustu. Sigurður segir í fréttinni að ástæður séu margar: „Fjármagnskostnaður hefur hækkað, laun hafa hækkað, lóðaverð er hátt og heilt yfir er nokkur óvissa í hagkerfinu. Minni og meðalstórar arkitektastofur hafa fundið fyrir samdrætti, sem hafa verið í hönnun á íbúðarhúsnæði. Svo höfum séð það að sölutími íbúða hefur lengst og verðið hefur staðið í stað í nokkra mánuði og hefur jafnvel lækkað á meðan byggingarkostnaðurinn sjálfur hefur hækkað umtalsvert. Við gerðum könnun meðal félagsmanna núna fyrri hluta ársins og vorum að spyrja um huglægt mat á væntingum um umsvif í náinni framtíð og þá gætti nokkurrar svartsýni hjá hópnum og þeir sáu fram á mikinn samdrátt í fjölda bygginga á íbúðum, allt að 65%, en núna erum við að sjá vísbendingar um þennan samdrátt beint í veltutölunum hjá þessum fyrirtækjum þar sem verkefni eru að dragast saman, bæði hjá arkitektum og verkfræðingum, sem hefur áhrif á byggingariðnaðinn næstu mánuði og ár. Við höfðum séð þessar vísbendingar en höfum núna fengið þær staðfestar.“ 

Þarf jafnvægi á milli þéttingar byggðar og nýrra byggingasvæða

Í frétt Morgunblaðsins segir að á sama tíma og eftirspurn hafi dalað sé samt mikil þörf á íbúðarhúsnæði. „Aðstæður eru þannig að þær eru ekki hvetjandi til uppbyggingar eins og staðan er í dag.“ Sigurður segir að þegar leitað sé lausna sé helst að líta til sveitarfélaganna og áherslna í byggingarmálum og að of mikið sé einblínt á að þétta byggð og það þurfi að vera jafnvægi á milli þéttingar byggðar og nýrra byggingasvæða. „Síðast en ekki síst eru það lóðirnar. Þegar gjald fyrir byggingarrétt er 20 milljónir króna fyrir íbúð þá segir það sig sjálft að það hægir á allri uppbyggingu. Þarna þarf að finna meira jafnvægi.“

Morgunblaðið / mbl.is, 9. september 2023. 

Morgunbladid-09-09-2023_2