Fréttasafn



15. mar. 2019 Almennar fréttir

Samkeppnishæfnin skiptir öllu máli

„Það eru fjórir þættir sem eru lykilþættir í því að skapa hér velsæld. Það eru menntunin, nýsköpunin, innviðirnir og starfsumhverfið,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, í pallborðsumræðum á Iðnþingi 2019 sem fram fór í Hörpu. Þegar hún var spurð að því hvaða mál væru brýnust til þess að efla íslenskan iðnað um þessar mundir sagði hún að samkeppnishæfnin skipti öllu máli og að Samtök iðnaðarins hefðu í því ljósi mikið verið að skoða samkeppnishæfnina og gefið meðal nýlega annars út skýrslu um það efni.

Iðnaðurinn hrópar eftir iðn-, verk- og tæknimenntuðu fólki

Guðrún sagði gríðarlega mikilvægt að við menntum fólkið okkar. „Við höfum verið að mennta allt of marga í hefðbundnu bóklegu námi sem fá ekki vinnu í samræmi við sína menntun. Á sama tíma hrópar iðnaðurinn eftir iðn-, verk- og tæknimenntuðu fólki en nægt framboð af fólki menntað í þessum greinum er forsenda þess að iðnaður geti blómstrað hér á landi.“

Hlúa þarf að iðnaði þannig að hann blómstri og dafni um allt land

Kjörís, fjölskyldufyrirtækið sem hún er alin upp innan er 50 ára í ár og sagði Guðrún fyrirtækið byggja meðal annars á þrautseigju. „50 ára saga er eins og 50 ára hjónaband. Það fer upp og niður og það er ekki alltaf gleði. Það gengur á með stormum en svo eru sólskinsdagar inni á milli og við viljum gjarnan fá fleiri sólskinsdaga.“ Þá sagði Guðrún að þó Kjörís væri lítið fyrirtæki þá væri það risastórt í Hveragerði. „Þar finnur þú svo áþreifanlega hvað hvert einasta starf skiptir máli. Það skiptir því gríðarlega miklu máli að hlúa að iðnaði þannig að hann geti blómstrað og dafnað hringinn í kringum landið.“ 

Hér er hægt að nálgast upptöku frá pallborðsumræðunum á Iðnþingi 2019, auk Guðrúnar tóku þátt í umræðunum Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel. Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, stýrði umræðunum.

https://vimeo.com/322141618

Si_idnthing_silfurberg-29_1552557144409

Si_idnthing_silfurberg-50