Fréttasafn



22. maí 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Seðlabankinn hefur vaxtalækkunarferli

Í morgun steig peningastefnunefnd Seðlabankans sitt fyrsta skref í vaxtalækkunarferli með lækkun stýrivaxta bankans um 0,5 prósentur. Lækka meginvextir bankans, þ.e. vextir á sjö daga bundnum innlánum, við þetta úr 4,5% niður í 4,0%.

Í greiningu Samtaka iðnaðarins sem birt var fyrir viku síðan segir að innistæða sé fyrir vaxtalækkun nú. Þar segir að stýrivextir bankans séu háir og talsvert svigrúm til lækkunar. Taumhald peningastefnunnar sé of þétt um þessar mundir og sterk rök fyrir því að lækka stýrivexti bankans. Í greiningunni eru taldar upp fjórar meginforsendur vaxtalækkunar nú, þ.e. slaki er tekinn við að spennu í þjóðarbúskapnum, horfur í efnahagsmálum hafi versnað, nýgerðir kjarasamningar skapi grundvöll stöðugleika og verðbólguvæntingar hafi lækkað.

Hagvaxtarhorfur breyst verulega

Ástæður þær sem peningastefnunefndin týnir til sem rök fyrir lækkun vaxta nú eru í takti við þær sem komu fram í greiningu SI. Í yfirlýsingu nefndarinnar segir að m.v. nýja þjóðhagsspá bankans sem birt var samhliða ákvörðuninni nú hafi hagvaxtarhorfur breyst verulega frá síðustu spá bankans. Spáir bankinn nú 0,4% samdrætti í hagkerfinu í ár en spáði áður 1,8% hagvexti. Í yfirlýsingunni segir jafnframt að viðsnúningur í efnahagsmálum geri það að verðbólguhorfur hafi breyst nokkuð á skömmum tíma og hljóði ný spá bankans upp á minni verðbólgu á næstunni en fyrri spá hans. Tekur nefndin fram í þessu samhengi að verðbólguvæntingar hafi lækkað á ný eftir að hafa hækkað umtalsvert er leið á síðasta ár.