Fréttasafn



24. sep. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Sérstök staða í hagkerfinu

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, ræddi um stöðu hagkerfisins við Kristján Kristjánsson í Sprengisandi á Bylgjunni um helgina þar sem kom meðal annars fram að innlendir bankar haldi að sér höndum í fjármögnun byggingaframkvæmda og því vanti súrefni. „Ég held að bankarnir vilji lána meira en þeir geti það ekki. Þetta hefur áhrif, það er minna um fjárfestingar. Við sjáum það eins og í íbúðatalningunni að það eru færri verkefni sem fara af stað núna heldur en sex mánuði á undan. Það hefur allt áhrif. Það sem er auðvitað mjög sérstakt um þessar mundir er að nú stendur til að auka enn á kröfur um eigið fé bankanna, eiginfjárhlutfall bankanna. Það þýðir á mannamáli að þeir munu hafa enn minni getu til að lána út fjármagn. Þetta er að kröfu sama ríkis sem við erum að tala um, það er Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið og stjórnvöld sem leggja þetta til. Ákvörðunin um þetta er auðvitað tekin við allt aðrar aðstæður heldur en uppi eru núna. Þetta er eldri ákvörðun og á að koma til framkvæmda um áramótin. Þannig að staðan er slæm núna en hún verður ennþá verri,“ segir Sigurður.

Staða þjóðarbúsins sterkari en áður

Sigurður segir hagkerfið kólna en að staðan sé áhugaverð. „Sögulega séð hefði gengi krónunnar lækkað með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu og annað. En það gerist ekki núna því staða þjóðarbúsins er miklu sterkari en áður. Hún lýsir sér meðal annars í því að erlend staða þjóðarbúsins er miklu betri, hún hefur aldrei verið eins góð og núna. Allt í einu eigum við eignir umfram skuldir erlendis sem nemur 22% af landsframleiðslu en hefur yfirleitt verið í mínus. Það er öflugur gjaldeyrisvaraforði, skuldir ríkissjóðs hafa lækkað og þetta eykur allt tiltrú á stöðugleika krónunnar og gerir Seðlabankanum kleift að halda verðbólgu innan marka þannig að það þarf ekki að hækka vexti núna eins og venjulega, heldur er hægt að lækka þá.“

En heldurðu að það verði áfram? „Seðlabankastjóri hefur ítrekað talað um svigrúm í þá veru þannig að ég reikna með því að svo verði. Það ætti að hafa jákvæð áhrif og ætti að örva eftirspurn í hagkerfinu en það er ekki víst að það gerist út af stöðunni á fjármálamarkaði. Þar sem þeir sem eiga þá að lána og eru milliliðir varðandi fjármagn í landinu geti ekki lánað vegna hærri eiginfjárkrafna.“

Lykilaðilar ganga meira í takt en áður í íslenskri hagsögu

Sigurður segir í viðtalinu að samdrátturinn sem við sjáum núna vari eitthvað fram á næsta ár og ef ekki verður gripið til aðgerða megi búast við því að hagvöxtur næsta árs verði hægur. „Það er spáð um 2% vexti en það getur alveg orðið minna ef ekki verður gripið til aðgerða. Það er varhugavert að ofmeta viðsnúning í hagkerfinu við þessar aðstæður. Það er jákvætt við þessar aðstæður að lykilaðilar virðast ganga meira í takt en áður í íslenskri hagsögu en það dugar þó ekki til ef sá taktur er of hægur. Það þarf að bregðast hratt við þeirri vá sem er fyrir dyrum og þá er það auðvitað Seðlabankans og ríkisins að örva hagkerfið, það er meðal annars gert með lækkun vaxta eða vaxtastiginu, eða gert með fjárfestingum og ríkið getur haft áhrif þar. “

Skref í rétta átt til að örva hagkerfið

„Það er jákvætt við þessar aðstæður að það sé ráðist í fjárfestingar. Það er líka kannski áminning um þá miklu uppsöfnuðu þörf sem er fyrir fjárfestingar. Við höfum fagnað því sérstaklega í fjárlagafrumvarpinu áherslu á fjárfestingu í hagvexti framtíðar, við sjáum aukningu á fjármagni til nýsköpunar, í menntamálum og í samgöngumálum. Allt þetta er mjög jákvætt og skref í rétta átt að örva hagkerfið þegar það þarf á því að halda. Það var áhugavert að sjá skýrslu OECD sem kom út síðasta mánudag og framkvæmdastjóri stofnunarinnar kom til landsins til að kynna skýrsluna. Þar sjáum við að stoðirnar eru sterkar þó það sé samdráttur um þessar mundir. Lífskjör á Íslandi eru með besta móti, jöfnuður er óvíða meiri og staða ríkissjóðs er traust. Þeir tala sérstaklega um endurreisn efnahagslífsins, að hún hafi gengið vonum framar. Það er auðvitað gaman að sjá það fyrir okkur sem tókum virkan þátt í því, að heyra það frá OECD. En þeir benda líka á blikur á lofti í heimshagkerfinu og við munum alltaf finna fyrir því á einhvern hátt. Minni eftirspurn úti getur auðvitað haft áhrif á útflutningstekjur okkar. Það er talað um fábreytni í útflutningi sem áhættuþátt. Við þurfum að fjölga stoðunum sem er gömul saga og ný og þá sérstaklega með hliðsjón af þessari stöðu núna þar sem stoðirnar eru orðnar það sterkar að það hefur minni áhrif á gengi krónunnar að þá þurfum við fleiri stoðir.“

Á vef Bylgjunnar er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.

Þeir Kristján og Sigurður ræddu einnig um íbúðamarkaðinn. Á vef Bylgjunnar er einnig hægt að hlusta á þann hluta.