Fréttasafn



17. feb. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

SI gera athugasemd við skrif á Kjarnanum

Í grein ritstjóra Kjarnans, Þórðar Snæs Júlíussonar, þar sem hann spyr hvort gefa eigi alþjóðlegum auðhringjum orkuauðlindina gætir misskilnings sem Samtök iðnaðarins vilja leiðrétta og hefur athugasemdin verið birt á vef Kjarnans

Samtök iðnaðarins hafa ítrekað bent á að orkuverð til orkusækins iðnaðar á Íslandi þurfi að vera samkeppnishæft enda mikilvægt að standa vörð um samkeppnishæfni orkuiðnaðar á Íslandi. Samtökin benda á að líta þurfi til virðiskeðjunnar í heild sinni og að aukinn sveigjanleika þurfi á raforkumarkaði enda getur slíkur sveigjanleiki aukið samkeppnishæfni Íslands á þessu sviði. Verð raforkunnar eitt og sér er því ekki það eina sem líta þarf til. Orkusækinn iðnaður skilar þjóðarbúinu miklum verðmætum og má í því sambandi nefna að innlendur kostnaður áliðnaðarins nam 86 milljörðum króna árið 2018, þar af voru kaup á vörum og þjónustu hér á landi 23 milljarðar króna. Það gefur auga leið að hundruð fyrirtækja njóta góðs af því. Þá eru raforkukaup undanskilin en út frá meðalverði má áætla að þau nemi hátt í 40 milljörðum. Þessu til viðbótar eru efnahagsleg umsvif annarra stórnotenda raforku eins og gagnavera.

Það er því ekki rétt sem ritstjórinn skrifar að und­an­farið hafi „þessi heild­ar­sam­tök iðn­aðar á Íslandi, með yfir 1.400 fyr­ir­tæki og félög sjálf­stæðra atvinnu­rek­enda inn­an­borðs, tekið upp stefnu sem virð­ist mótuð af hags­munum nokk­urra alþjóð­legra stór­fyr­ir­tækja sem kaupa orku á Íslandi til að fram­leiða ál“. Þvert á móti hafa samtökin talað fyrir mikilvægi þess að virðiskeðjan á íslenskum orkumarkaði sé arðbær fyrir alla sem á þeim markaði eru. Í raforkustefnu samtakanna, sem samþykkt var árið 2016 af stjórn SI þar sem saman koma fulltrúar ólíkra greina iðnaðar, er meginstefið að raforka framleidd á Íslandi sé nýtt til verðmætasköpunar innanlands því öflugur iðnaður skapar störf og er undirstaða búsetu og velferðar. Horft er til sameiginlegra hagsmuna íslensks iðnaðar og ekki gerður greinarmunur á byggingariðnaði, framleiðsluiðnaði eða hugverkaiðnaði. Samkeppnishæft orkuverð gagnast öllum sem eru í rekstri, allt frá bakaranum til stóriðjunnar.

Það er heldur ekki rétt sem ritstjórinn skrifar „…að íslenskir skattgreiðendur afhendi alþjóðlegum stórfyrirtækjum græna orku undir markaðsvirði“. Því hafa samtökin aldrei haldið fram heldur að orkuverðið sé samkeppnishæft. Þegar spurt er hvort einstök aðildarfélög Samtaka iðnaðarins hafi hag að því að orkuverðið sé samkeppnishæft er svarið já en ekki nei. Það ætti öllum að vera ljóst að ef verðið er ekki samkeppnishæft til lengdar þá er fullvíst að orkusækinn iðnaður leggst af á Íslandi, þannig virka markaðslögmálin.

Hins vegar er það rétt sem kemur fram í skrifum ritstjórans að þau örfáu stór­iðju­fyr­ir­tæki sem hér starfa kaupa 80 pró­sent af allri orku sem við fram­leið­u­m. Í ljósi þessa ætti það að vera áhyggjuefni þegar eitt þessara fyrirtækja tilkynnir um mögulega lokun starfsemi sinnar eða þegar stór gagnaver hér á landi kjósa að byggja upp starfsemi í Svíþjóð frekar en hér á landi þar sem samkeppnishæfni Svíþjóðar á þessu sviði er meiri en Íslands. 

Kjarninn, 17. febrúar 2020.