Fréttasafn



24. apr. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

SI mótmæla fyrirhugaðri lækkun á endurgreiðslu vsk

SI mótmæla fyrirhugaðri lækkun á endurgreiðslum virðisaukaskatts vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði úr 60% í 35% sem fram kemur í fjármálaáætluninni og taka á gildi um mitt þetta ár. Aðgerðin hækkar kostnað við húsbyggingar og kemur þannig til viðbótar við aðra þætti sem draga úr hvötum til uppbyggingar sbr. hækkun vaxta, hækkun á verði aðfanga, hærri launakostnaðar og óvissu í hagkerfinu. Þetta kemur meðal annars fram í umsögn Samtaka iðnaðarins um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028 sem send hefur verið fjárlaganefnd. 

Í umsögninni segir að verðbólga á Íslandi sé há m.a. vegna þess ójafnvægis sem ríkt hefur á húsnæðismarkaði undanfarin ár sem stafar ekki síst af því að of lítið hefur verið byggt á undanförnum áratug miðað við eftirspurn. Hætta sé á að aðgerðin dragi úr uppbyggingu íbúða sem hafi áhrif á markaðinn eftir 2-3 ár að teknu tillit til framkvæmdatíma sem sé að jafnaði um 2 ár.

Framundan er samdráttur í uppbyggingu íbúða

Í viðauka sem fylgir umsögninni segir að SI telja fyrirhugaða lækkun á endurgreiðslum virðisaukaskatts vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði úr 60% í 35% sé til þess fallin að draga úr uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Í viðaukanum er vísað í skoðanakönnun sem gerð var í apríl á þessu ári meðal félagsmanna SI sem eru að byggja íbúðir þar sem kemur fram að samanlagt muni þetta leiða til þess að íbúðaruppbygging dregst verulega saman. Könnunin náði til aðila sem byggja fyrir eigin reikning og eru með ríflega 26% af heildarfjölda íbúða í byggingu. Samkvæmt könnuninni byrjuðu þessir aðilar á 1.473 íbúðum á síðustu 12 mánuðum en munu byrja á 509 íbúðum á næstu tólf mánuðum. Samdrátturinn sé ríflega 65%. Þessi samdráttur kemur í kjölfar þess að fjárfesting í íbúðarhúsnæði hafi verið að dragast saman undanfarið. Nam samdrátturinn á fjórða ársfjórðungi sl. árs 9,1% en fjárfesting í íbúðarhúsnæði hafi þá verið að dragast saman síðan á seinni helmingi árs 2021.

Þá segir í viðaukanum að skýr merki séu nú um að framundan sé samdráttur í uppbyggingu íbúða. Sá samdráttur merki aðeins eitt: Þegar hagkerfið rétti úr kútnum, eftir eitt til tvö ár, verði ekki nægt framboð af íbúðum. Það liggi því fyrir að forsendur ríkisstjórnarinnar fyrir umræddri lækkun endurgreiðsluhlutfallsins muni fyrst og fremst valda byggingaraðilum tjóni, draga úr uppbyggingu og skapa ójafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar á íbúðamarkaði þegar hjólin eigi aftur að fara að snúast.

Hér er hægt að nálgast umsögn SI.