Fréttasafn



22. jan. 2020 Almennar fréttir Orka og umhverfi

SI og SA styðja ekki óbreytt frumvarp um hálendisþjóðgarð

Samtökin telja að undir í málinu séu víðtækir hagsmunir Íslendinga til langrar framtíðar og að ekki sé unnt að styðja samþykkt frumvarpsins nema til komi miklu nánari greining á þessum hagsmunum bæði umhverfislegum, samfélagslegum og efnahagslegum. Enga tilraun til þeirrar greiningar er að finna í frumvarpsdrögunum eða greinargerð sem þeim fylgja. Þetta kemur meðal annars fram í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins um drög að frumvarpi um hálendisþjóðgarð. 

Ótímabært að friða margar af helstu orkulindum landsins

Í umsögninni segir jafnframt að samtökin telja nauðsynlegt að endanleg útfærsla og frumvarpsgerð verði látin bíða niðurstöðu starfshóps sem hefur það hlutverk að vinna langtíma orkustefnu fyrir Ísland. Það sé ótímabært að friða margar af helstu orkulindum landsins þegar ekki liggi fyrir hver orkuþörf landsmanna, bæði einstaklinga og atvinnulífs, verði til langs tíma og hvernig henni verði best mætt. Samtökin telja einnig að tæknileg þróun geti breytt virkjanakostum og séð til þess að umhverfisáhrif þeirra verði minni en nú megi sjá fyrir. Horfa verði til langrar framtíðar í þessum efnum og augljóst sé að nýjum virkjunum fylgir einnig nauðsynlegur orkuflutningur. 

Stækka og minnka friðlýst svæði án aðkomu Alþingis

Þá kemur fram að lengst af hafi áætlanir um friðlýsingar verið lagðar fyrir Alþingi til umfjöllunar og staðfestingar og hafi þannig hlotið pólitískan og samfélagslegan stuðning. Nú bregði svo við að ráðherra sé ætlað að ákveða friðlýsingar með reglugerð og þannig verði unnt að stækka og minnka hin friðlýstu svæði (þjóðgarða) án aðkomu þingisins. Samtökin telja hina fyrri aðferð betri og að hún tryggi betur að um nýtingu og friðlýsingu svæði ríki sem víðtækust sátt.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.