Fréttasafn



1. mar. 2024 Almennar fréttir Menntun

Sjálfboðaliðar af vinnumarkaði heimsæki kennslustundir

Stækkaðu framtíðina er heiti á nýju verkefni sem sett hefur verið á laggirnar af háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra í samvinnu við mennta- og barnamálaráðherra. Verkefnið er ætlað fyrir alla grunn- og framhaldsskóla landsins og felst í því að sjálfboðaliðar af vinnumarkaði heimsækja kennslustundir til að lýsa starfi sínu, segja nemendum frá því hvernig nám þeirra hefur nýst og hvaða bakgrunn viðkomandi hefur. Heimsóknir í skóla hefjast í haust en undirbúningur verkefnisins er hafinn. 

Stækkaðu framtíðina er íslensk útgáfa af breska verkefninu Inspiring the Future. Verkefnið hóf göngu sína í Bretlandi árið 2012, er rannsóknamiðað og hafa um 75.000 sjálfboðaliðar tekið þátt í því. Verkefninu er einnig haldið úti í Ástralíu, Nýja Sjálandi og Sviss og teygir anga sína víðar. Stækkaðu framtíðina er hugsað sem samstarfsvettvangur ólíkra hagsmunaðila en NýMennt (Nýsköpun og Menntasamfélag á Menntavísindasviði HÍ) heldur utan um innleiðingu verkefnisins hér á landi.

Í tölvupósti frá SA til félagsmanna SI segir að sjálfboðaliðar séu mikilvægasti bakhjarl verkefnisins þar sem þátttaka fólks úr fjölbreyttu atvinnulífi sé lykilatriði fyrir velgengni þess. Verkefnið sé því unnið í góðu samstarfi við Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Kennarasamband Íslands sem og Samtök íslenskra sveitarfélaga auk fjölmargra fagfélaga hinna ýmsu stétta.

Verkefnið miði að því að öll börn og ungmenni:

  • Hafi jöfn tækifæri og aðgang að fjölbreyttu námi og störfum sem eru í samræmi við áhuga þeirra og hæfileika.
  • Sjái þá möguleika sem standa þeim til boða, óháð bakgrunni og staðsetningu.
  • Fái tækifæri til að kynnast ólíkum störfum og heyra sögur frá fólki af vinnumarkaðinum.
  • Upplifi aukinn áhuga og sjái tilgang með námi sínu.

 

Á vefnum www.staekkaduframtidina.is er hægt að skrá sig til þátttöku í verkefninu.