Fréttasafn



25. mar. 2021 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Skortur á nýjum lóðum er flöskuháls í íbúðauppbyggingu

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í frétt Morgunblaðsins um nýja íbúðatalningu SI að íbúðum í byggingu fækki á öllum byggingarstigum milli talninga og lagerinn af fullbúnum íbúðum hafi nær selst upp undanfarið. „Við höfum ekki séð færri íbúðir í byggingu í fjögur ár hér á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er mesta fækkun íbúða í byggingu milli ára frá upphafi mælinga hjá okkur sem var 2010.“ Hann segir það áhyggjuefni að ekki skuli vera fleiri íbúðir á fyrstu byggingarstigum og það kalli á lítið framboð á fullbúnum íbúðum litið fram í tímann og ójafnvægi á markaðnum. „Skortur á fullbúnum íbúðum skilar sér þá í áframhaldandi hækkun húsnæðisverðs. Það sem stýrir þessu öðru fremur er lóðaframboðið og því er stýrt af sveitarfélögum.“ Í fréttinni segir að takmarkað framboð sé því afleiðing þeirrar stefnu að þétta byggð á kostnað þess að brjóta nýtt land undir byggð. „Það eru skýr skilaboð frá okkar félagsmönnum að lóðirnar eru flöskuhálsinn og það sem hefur komið í veg fyrir uppbyggingu hagkvæmra íbúða.“ 

Morgunblaðið / mbl.is, 25. mars 2021.

Morgunbladid-25-03-2021