Fréttasafn



25. ágú. 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Skýr merki um samdrátt í uppbyggingu nýrra íbúða

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í frétt Morgunblaðsins að skýr merki séu um samdrátt í uppbyggingu nýrra íbúða. Í fréttinni segir að máli sínu til stuðnings vísi hann til grafs sem sýni annars vegar að bilið sé að aukast milli fullbúinna íbúða og fjölda íbúða sem þarf til að mæta þörf og hins vegar sýni grafið niðurstöður könnunar sem Outcome gerði fyrir Samtök iðnaðarins meðal verktaka. Þá segir í fréttinni að íbúðaþörfin hafi verið áætluð í rammasamkomulagi ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu íbúða í júlí í fyrra og að Samtök iðnaðarins hafi áætlað fjölda fullbúinna íbúða út frá gögnum HMS. Könnunin bendi til að hafin verði smíði á 509 íbúðum á næstu tólf mánuðum borið saman við 1.473 íbúðir á síðustu tólf mánuðum. Það samsvari um 65% fækkun milli tímabilanna. 

Fjármagnskostnaður á hverja nýja íbúð hækkað um milljónir

Í frétt Morgunblaðsins segir Sigurður því ljóst að verið sé að endurmeta tölur til lækkunar frá fyrri áætlunum. Þegar blaðamaður spyr hann hvað verktakar muni að jafnaði þurfa að greiða í vexti af framkvæmdalánum í kjölfar síðustu vaxtahækkunar Seðlabankans áætlar Sigurður að vextirnir verði að jafnaði 12- 13%, almennt hafi fjármagnskostnaður á hverja nýja íbúð hækkað um milljónir króna síðan Seðlabankinn hóf að hækka vexti á ný sumarið 2021 og að sú hækkun geti aftur skilað sér í söluverði íbúða og þar með í verðbólgumælingum. 

Vaxtahækkun Seðlabankans þrýstir á hærra verð nýrra íbúða

Þegar blaðamaður spyr Sigurð hvort síðasta vaxtahækkun sé því að þjóna tilgangi sínum í ljósi þess að hún þrýsti á hærra verð nýrra íbúða segir hann að það sé góð spurning, Seðlabankinn hafi hert reglur um greiðslumat og lánshlutföll til að draga úr eftirspurn auk þess að hækka vexti. „Það mun síðar gera Seðlabankanum erfitt um vik að lækka vexti. Lægri vextir ættu þá enda að hvetja til viðskipta með fasteignir eins og annarra viðskipta. Það mun leiða til hærra verðs ef eftirspurnaráhrifin fá að koma fram. Um leið og eitthvað breytist – ef til dæmis vaxtastigið lækkar eða slakað verður á kröfum við greiðslumat – mun það koma fram með tilheyrandi verðhækkunum. Við sáum það í farsóttinni að þegar vextir lækkuðu jókst veltan og verðið hækkaði. Sambærileg áhrif munu birtast þegar fólki verður aftur gert kleift að komast inn á markaðinn.“

Morgunblaðið / mbl.is, 25. ágúst 2023.

Morgunbladid-25-08-2023