Fréttasafn



13. mar. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Skýr skilaboð að ríkisfjármálum verði beitt til að örva hagkerfið

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins í Morgunblaðinu í dag, sem segir aðgerðir ríkisstjórnarinnar mikilvægar hvað snertir væntingar í hagkerfinu. „Þetta sendir skýr skilaboð um að ríkisfjármálum verði beitt til að örva hagkerfið. Eftirspurn er að dragast saman. Við þær aðstæður skiptir miklu máli að stjórnvöld sýni að þau ætla að auka sína eftirspurn og fjárfestingar í framtíðarvexti. Það er hvatning til annarra og skapar væntingar um að efnahagsbatinn verði hugsanlega hraðari en ella. Fjárhagslegu áhrifin koma fram seinna.“ 

Hann segir að það eigi eftir að koma í ljós hvaða áhrif kórónuveiran muni hafa á uppbyggingu íbúða. Stjórnvöld geti með ívilnandi aðgerðum stutt við byggingargeirann. Til dæmis með eiginfjárlánum, stofnstyrkjum vegna félagslegs húsnæðis og endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna endurbóta á húsnæði. Þá hafi ríkisstjórnin kynnt aðgerðir um að auka opinberar framkvæmdir um 20-25 milljarða á ári næstu þrjú ár. „Það á eftir að meta áhrifin af þessum aðgerðum heildstætt. Ríkisstjórnin er ekki í öfundsverðri stöðu hvað það varðar.“ 

Morgunblaðið, 13. mars 2020.