Fréttasafn



25. feb. 2015 Gæðastjórnun

Sláturfélag Suðurlands hlaut EDI-bikarinn

Aðalfundur ICEPRO fór fram á Hótel Sögu þriðjudaginn 24. febrúar síðastliðinn. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ávarpaði fundinn og afhenti EDI-bikarinn fyrir framúrskarandi árangur á sviði rafrænna viðskipta. Sláturfélag Suðurlands hlaut bikarinn að þessu sinni og tók Sigurjón Stefánsson við honum fyrir hönd félagsins. Í ávarpi ráðherra sagði:

Sláturfélag Suðurlands er verðugur verðlaunahafi. Þeir tóku tilmæli fjármálaráðuneytis föstum tökum og gátu strax frá 1. janúar 2015 gefið út rafræna reikninga samkvæmt tækniforskriftum Fagstaðlaráðs í upplýsingatækni. Jafnframt mun Sláturfélagið brátt geta tekið á móti rafrænum reikningum samkvæmt tækniforskriftunum.

Sigurjón Stefánsson, deildarstjóri upplýsingatæknideildar Sláturfélagsins, er formaður samræmingarhóps ICEPRO. Innleiðing XML tækniforskriftanna hefur notið góðs af forystu Sláturfélags Suðurlands og líklega mun brautryðjandastarf þeirra auðveldað öðrum fyrirtækjum innleiðinguna.

Næst tók til máls Bergljót Kristinsdóttir, deildarstjóri upplýsingatæknideildar Veritas, sem fjallaði um efnið „Eru rafrænir reikningar arftaki EDI samskipta?“. Svo fjallaði Vilma Svövudóttir, hjá upplýsingatæknideild Ölgerðarinnar um „framtíðina með rafrænum reikningum hjá Ölgerðinni“.

Í hefðbundnum aðalfundarstörfum var Bergljót Kristinsdóttir hjá Veritas kjörin varamaður í stjórn en stjórnin er að öðru leyti óbreytt.

ICEPRO er samráðsvettvangur samtaka viðskiptalífsins, fyrirtækja og hins opinbera um stöðluð rafræn viðskipti og einföldun í viðskiptháttum og EDI bikarinn er afhentur árlega því fyrirtæki, stofnun eða lausn sem skarað hefur fram úr á sviði rafrænna viðskipta á liðnu starfsári.

Með rafrænum viðskiptum má spara verulega í útgjöldum við bókhald en sparnaðurinn felst einna helst í þeim pappír sem annars þyrfti að prenta út, geymsluplássi og tímasparnaði við upplýsingaleit. Verðlaunin draga nafn sitt af Electronic data interchange (EDI) en það er rafrænn samskiptamáti sem hefur verið notaður í viðskiptum hérlendis. Í milliríkjaviðskiptum er notast við nýrra forritunarmál, XML en búast má við að það taki við af EDI þegar til lengri tíma er litið.

Nánari upplýsingar er að finna á www.iceprio.is