Fréttasafn



29. des. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Stærsta sóknarfærið í hugverkaiðnaði

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, segir mestu áskorunina á næsta ári snúa að vinnumarkaði og endurnýjun kjarasamninga í umfjöllun Innherja sem leitaði til Sigríðar, Lilju Alfreðsdóttur og Kristrúnar Frostadóttur til að grennslast fyrir um hverjar þær teldu helstu áskoranir atvinnulífsins á næsta ári og hvar sóknarfærin liggja. Þar segir Sigríður að frekari ósjálfbærar launahækkanir munu bitna á vexti íslensks atvinnulífs til framtíðar. „Þá þarf rammi kjarasamninga að taka mið af því að íslenskt atvinnulíf og hagkerfi er að breytast hratt, meðal annars með vexti hugverkaiðnaðar. Það skiptir miklu máli að eiga yfirvegaða umræðu og samtal um að hagsmunir atvinnulífs og heimila fara saman. Eftir heimsfaraldur og aðrar áskoranir meðal annars í tengslum við hækkun flutnings- og hráefniskostnaðar, á síðustu misserum er mikilvægt að iðnaður og atvinnulífið allt fái súrefni og svigrúm til vaxtar.” Hún segir það vera í þágu alls samfélagsins. Þá verði loftslags- og orkumál einnig í brennidepli en ryðja þurfi úr vegi hindrunum í raforkukerfinu. „Eins og við höfum séð skýrt síðustu vikur hafa veikleikar í raforkukerfinu dregið úr verðmætasköpun og komið illa við efnahagslífið. Við því verður að bregðast strax enda kallar styrking kerfisins á framkvæmdir sem telja í árum en ekki mánuðum.”

Sigríður segir að áframhaldandi fjárfesting í nýsköpun og tilheyrandi vöxtur hugverkaiðnaðar sé stærsta sóknarfærið. „Árið 2021 var metár í fjárfestingu í nýsköpun hér á landi. Það eru ómæld tækifæri í vexti hugverkaiðnaðar, sem hefur nú fest sig rækilega í sessi sem fjórða stoðin í verðmætasköpun og útflutningi. Tími uppskeru er framundan en ný ríkisstjórn veðjar á nýsköpun í iðnaði og er það skynsamlegt veðmál. Vöxtur hugverkaiðnaðar mun draga úr sveiflum í efnahagslífinu til framtíðar og skapa eftirsótt og verðmæt störf.“

Þá segir Sigríður sóknarfæri í nýsköpun og tækniþróun og aukinni orkuöflun. „En þetta þarf að koma saman í auknum mæli til að bregðast við loftslagsvandanum. Það er hin hliðin á þeirri áskorun sem loftlagsvandinn vissulega er. Íslenskur iðnaður er nú þegar á fleygiferð. Hér liggja mikil sóknarfæri og getum við haft samkeppnisforskot á aðrar þjóðir í þessum efnum, meðal annars í þróun grænna lausna og útflutningi á því sviði.”

Vísir/Innherji, 28. desember 2021.