Fréttasafn



14. feb. 2024 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Starfsskilyrði í byggingariðnaði breyst til hins verra

Sigurður Hannesson, frramkvæmdastjóri SI, segir í frétt Vísis að starfsskilyrði í byggingariðnaði hafi versnað mikið og skýr merki séu um samdrátt í íbúðauppbyggingu. Í fréttinni kemur fram að gjaldþrotum starfandi fyrirtækja fjölgaði verulega á milli ára og í byggingariðnaði voru þau þrefalt fleiri í fyrra en árið á undan. Sigurður segir tölurnar ekki koma á óvart. „Vegna þess að starfsskilyrðin hafa breyst mjög mikið til hins verra. Þegar kemur að íbúðauppbyggingu hefur sölutími eigna lengst og á sama tíma hafa vextir hækkað þannig að fjármagnskostnaður er orðinn býsna íþyngjandi. Það kemur ofan í skyndilegar skattahækkanir á greinina um mitt síðasta ár þegar endurgreiðsla vegna virðisaukaskatts lækkaði úr sextíu prósentum og niður í þrjátíu og fimm.“

Í frétt Vísis kemur fram að gjaldþrotin höfðu áhrif á mun fleiri launamenn í fyrra en árið áður en Sigurður geri ráð fyrir að þau séu helst meðal minni fyrirtækja. Hann segir áfram mikla eftirspurn hvað varðar uppbyggingu sem annars vegar tengist hótelum og atvinnustarfsemi og hins vegar hjá hinu opinbera, skýr merki séu hins vegar um samdrátt í íbúðauppbyggingu. „Til viðbótar við háan fjármagnskostnað hefur lóðaframboð verið lítið. Það er slegist um hverja einustu lóð sem losnar og verðið hefur farið hækkandi þannig allt vinnur þetta saman að verri skilyrðum. Og höfum þess vegna talað mjög mikið fyrir því að sveitarfélög auki við sitt lóðaframboð og hagi skipulagi þannig að það flýti fyrir uppbyggingu og eins að ríkið hugsi sinn gang varðandi skattamálin og taki til baka þessa skattahækkun sem við sáum í fyrra.“

Vísir, 14. febrúar 2024.