Fréttasafn



17. okt. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Stefna vegna innviðagjalda Reykjavíkurborgar þingfest

Í Morgunblaðinu í dag er sagt frá því að stefna byggingarverktakans Sérverks ehf. á hendur Reykjavíkurborg vegna innviðagjalda verði þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en borginni sé aðallega stefnt til endurgreiðslu oftekinna gjalda en til vara að ólögmæti innviðagjalds verði viðurkennt. 

Í frétt blaðsins segir að Sérverk segi að álagning innviðagjaldsins sé ólögmæt. Tekjuöflun sveitarfélaga verði að byggjast á heimild í lögum, óháð því hvort um er að ræða skattheimtu eða gjald fyrir þjónustu. Sérverk keypti Kuggavog 5 af Vogabyggð ehf. og tók m.a. yfir skuldabréf vegna innviðagjalda. Uppgreiðsluverð þess í október 2018 var rúmlega 120 milljónir króna. Sérverk skrifaði borginni 11. september 2018 og sagði að álagning innviðagjaldsins stæðist ekki því ekki væru heimildir í lögum til innheimtu þess. Því síður rúmaðist innviðagjaldið innan tekjuöflunarheimilda sem borgin hefði á einkaréttarlegum grunni. Fyrirtækið krafðist þess að fá innviðagjaldið endurgreitt. Borgin hafnaði því alfarið. Í stefnunni er m.a. vitnað í minnisblað til borgarstjóra þar sem kemur fram að áformaðar séu framkvæmdir í hverfinu við gerð gatna, torga, stíga, nýrra stofnlagna, strandstíga, útsýnis- og göngupalla, landfyllinga og grjótvarna. Einnig göngubrú og stíflu við Háubakkatjörn, brú yfir Naustavog, færslu á Kleppsmýrarvegi og færslu skolpdælustöðvar. Innviðakostnaður þessi er metinn tæpir fimm milljarðar króna í frumkostnaðaráætlun. Samtök iðnaðarins rituðu borginni 3. janúar 2017 og spurðust m.a. fyrir um heimild til að leggja á innviðagjöld. Borgarlögmaður taldi að borgin þyrfti ekki lagaheimild til töku innviðagjalda þar sem um væri að ræða einkaréttarlegan samning við lóðarhafa um samstarf við uppbyggingu hverfa í borginni. Í Morgunblaðinu segir að þess sé getið í stefnunni að embætti borgarlögmanns hafi lagt fram tillögur í nóvember 2018 um gjaldtökuheimildir vegna uppbyggingar almenningssamgangna. Þar sé lagt til að annaðhvort verði skipulagslögum breytt til að leyfa innheimtu innviðagjalds eða sett verði ákvæði um nýjan gjaldstofn í lög um gatnagerðargjald.

Morgunblaðið, 17. október 2019.