Fréttasafn



13. feb. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Stjórnvöld dragi úr álögum til að létta byrðarnar

Staða efnahagsmála hefur sannarlega breyst hratt undanfarið misseri. Aðstæður nú eru mjög krefjandi fyrir iðnað þar sem eftirspurn minnkar en raungengi er hátt á sama tíma og kostnaður hækkar. Við þessar aðstæður ættu stjórnvöld að draga úr álögum á fyrirtæki til að létta byrðarnar auk þess að fjárfesta enn frekar í innviðum og byggja þannig undir hagvöxt framtíðar. Þetta sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, meðal annars í setningarávarpi sínu á Framleiðsluþingi SI sem haldið var í Norðurljósum í Hörpu. 

Hún sagði innan raða Samtaka iðnaðarins væru ólík fyrirtæki í ólíkum greinum. „Það sem sameinar okkur er samkeppnishæfni – að almenn skilyrði til rekstrar séu góð. Fjórar meginstoðir framleiðni og samkeppnishæfni eru menntun eða mannauðsmál, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi. Stefna Samtaka iðnaðarins sem samþykkt var á síðasta ári horfir sérstaklega til þessara fjögurra áherslumála til viðbótar við umhverfis- og orkumál og ásýnd iðnaðar. Með þessu móti vinnum við að því markmiði sem er grundvöllur samtakanna – að efla íslenskan iðnað.“

Nýsköpun mun einkenna þriðja áratug aldarinnar

Þá sagði Guðrún að í síkvikum heimi þurfi að bregðast hratt við og nýsköpun og þróun séu sannarlega mikilvægur þáttur í starfsemi fyrirtækja. „Nýsköpun skapar fyrirtækjum forskot í samkeppni, styrkir efnahag landsins með nýjum störfum og auknum verðmætum og hún leysir samfélagslega mikilvæg viðfangsefni. Ég held því fram að nýsköpun muni einkenna þriðja áratug aldarinnar rétt eins og vöxtur fjármálaþjónustu einkenndi þann fyrsta og vöxtur ferðaþjónustu annan áratuginn. Hugvitið er okkar helsta auðlind og það þarf að virkja í meira mæli. Þess vegna er 2020 ár nýsköpunar hjá Samtökum iðnaðarins til þess að undirstrika mikilvægi nýsköpunar og þróunar og hvetja okkur öll til að líta til þess í meira mæli og losa þannig krafta úr læðingi.“

Aukin áhersla á loftslags- og umhverfismál breytir hegðun neytenda

Guðrún vék einnig að loftslagsmálum sem hún sagði vera dæmi um samfélagslega mikilvæga áskorun sem muni hafa mikil áhrif á okkur öll næstu ár og áratugi. „Nýsköpun mun leika lykilhlutverk við að sporna við hnattrænni hlýnun og þar hafa hérlend fyrirtæki margt fram að færa eins og við fáum að heyra um hér í dag. Þá mun aukin áhersla á loftslags- og umhverfismál breyta hegðun neytenda og því þarf iðnaðurinn að aðlagast. Að öðrum kosti verðum við undir í samkeppni.“ Hún sagði loftslagsmálin nú vera orðin að sérstöku áherslumáli í stefnu samtakanna og undirstriki það mikilvægi málaflokksins. „Undir forystu Samtaka iðnaðarins var Grænvangur stofnaður á síðasta ári en hann er samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir. Undir merkjum Grænvangs taka stjórnvöld og iðnaðurinn höndum saman um að vinna að markmiðum stjórnvalda um kolefnishlutleysi ásamt því að efla útflutning grænna lausna sem hjálpar öðrum ríkjum að ná sínum markmiðum loftslagsmálum enda er vandinn hnattrænn.“

Óumflýjanlegt að horfa enn frekar í átt til aukinnar sjálfvirkni

Í ávarpinu sagði Guðrún sterk skilaboð um áhrif snjallvæðingar í könnun sem Samtök iðnaðarins hafi gert meðal framleiðslufyrirtækja í aðdraganda Framleiðsluþings. „Með snjallvæðingu eykst sjálfvirkni sem og framleiðni. Með miklum launahækkunum undanfarinna ára þurfa fyrirtæki að horfa enn frekar í átt til aukinnar sjálfvirkni og fjárfesta í nýrri tækni. Þessi þróun er óumflýjanleg.“

Þá sagði Guðrún að þó áskoranir séu ýmsar um þessar mundir væru mörg tækifæri til sóknar. „Við þurfum öll að vera vakandi fyrir þeim og gera það sem við getum til að bæta okkar stöðu, hvert á sínu sviði. Íslenskur iðnaður einkennist af gæðum og þjónustustigið er hátt. Höldum okkar einkennum á lofti, meðal annars undir merkjum Íslenskt - gjörið svo vel og minnum þannig á mikilvægi íslensks iðnaðar. Það styrkir iðnaðinn, það styrkir efnahagslífið og það styrkir samfélagið allt.“

Í lokaorðum sínum sagði Guðrún: „Verum minnug þess er við göngum til starfa á hverjum degi að framlag okkar til íslensks atvinnulífs er grundvöllur framfara og velsældar hér á landi. Í hvert sinn sem ég sé einhvern borða ísinn minn gleðst yfir því að með þeim kaupum styrkti sá viðskiptavinur atvinnuuppbyggingu hér á landi.“

Si_framleidsluthing_2020-1Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, flutti setningarávarp á Framleiðsluþingi SI 2020.