Fréttasafn



7. maí 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Innviðir Mannvirki Menntun Nýsköpun Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Stjórnvöld rói öllum árum að því að styrkja framboðshliðina

Stjórnvöld þurfa að róa öllum árum að því að styrkja framboðshlið hagkerfisins. Þetta kemur fram í umsögn SI um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029, 1035. mál. Þar segir að SI fagni áherslum um að styrkja framboðshlið íslensks hagkerfis og hafi samtökin í fjölmörg ár lagt áherslu á þá málaflokka sem stuðli að því. Verðbólga sé drifin áfram af eftirspurn annars vegar, meðal annars vegna fjölgunar landsmanna, aukningar ríkisútgjalda og vaxtar atvinnuvega, og ónægu framboði hins vegar til dæmis á húsnæðismarkaði og á vinnumarkaði. Aðgerðir stjórnvalda til að styrkja framboðshlið hagkerfisins muni gera aðilum starfandi á Íslandi kleift að skapa aukin verðmæti á hagkvæmari hátt.

Framboðshlið hagkerfisins styrkt með umbótum

Í umsögninni segir að SI undirstriki að framboðshlið hagkerfisins sé styrkt með umbótum í mennta- og mannauðsmálum, með því að brúa færnimisræmi (e. skills gap), hvötum til fjárfestinga í nýsköpun, innviðauppbyggingu og einföldu og skilvirku regluverki og starfsumhverfi fyrirtækja. Tryggja þurfi aukið framboð af grænni raforku til orkuskipta, fyrir vöxt samfélagsins og uppbyggingu í iðnaði um land allt, fjölga þurfi iðn-, tækni- og verkmenntuðu starfsfólki, greiða þurfi götu framkvæmda og setja kraft í innviðafjárfestingu, ekki síst í samgöngum, húsnæði og orkuskiptum.

Iðnaður stendur að baki verulegum hluta verðmætasköpunar

Þá segir í umsögninni að öflugur iðnaður sé undirstaða góðra lífskjara á Íslandi. Iðnaður standi að baki verulegum hluta verðmætasköpunar í hagkerfinu, útflutningstekna Íslands og skatttekna hins opinbera. Skattspor iðnaðarins, þ.e. framlag iðnaðarins til samfélagsins í formi skattgreiðslna, sé umfangsmikið sem endurspegli hvað greinin sé stór hér á landi. Heildarskattspor iðnaðar hafi verið 462 mö.kr. árið 2022. Þröngt skattspor iðnaðarins sé 213 ma.kr. og sé það mest allra útflutningsgreina. 

Vantar skýra áætlun um lækkun á opinberum álögum

Í umsögninni kemur fram að SI hefðu viljað sjá í tillögunni skýra áætlun stjórnvalda um lækkun á opinberum álögum á næstu árum þar sem markmiðið væri að styrkja samkeppnishæfni atvinnulífsins. Skattaumhverfið þurfi að vera stöðugt, álögur lágar, reglur einfaldar og skýrar og skattframkvæmdin fyrirsjáanleg. Stefna stjórnvalda þar sem leiðarljósið sé lágir skattar og að gjaldtaka sé í samræmi við helstu samkeppnislönd skapi mikilvægan þátt í samkeppnishæfni fyrirtækja.

Ekki fjárfest nægjanlega í vegakerfinu

Einnig segir í umsögninni að þrátt fyrir mikilvægi sterkra vegasamgangna og fjárfestinga í vegakerfinu hafi ekki verið fjárfest nægjanlega í kerfinu undanfarin ár og viðhaldi þess ekki sinnt sem skyldi. Miðað við það sem fram komi í fjármálaáætluninni virðist ekki ætla að verða breyting þar á á næstu árum.

Stjórnvöld ráðist að rótum framboðsvanda á húsnæðismarkaði

Þá segir í umsögninni að SI telji að stjórnvöld þurfi að ráðist að rótum þess framboðsvanda sem nú er á húsnæðismarkaði með aðgerðum sem draga úr takmörkunum og töfum, s.s. með auknu lóðaframboði. SI mótmæla ákvörðun stjórnvalda um lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts úr 60% niður í 35%, sem tók gildi um mitt síðastliðið ár, þar sem sú aðgerð hafi leitt til samdráttar á uppbyggingu íbúða, þvert á yfirlýst markmið stjórnvalda.

Skattahvatar R&Þ verði festir í sessi

Í umsögninni kemur fram að SI leggja ríka áherslu á að skattahvatar vegna R&Þ verði festir í sessi til lengri tíma en fimm ára í senn en það muni gera fyrirtækjum kleift að gera langtímaáætlanir og skapa fyrirsjáanleika.

Kalla eftir fjármögnuðum áætlunum fyrir uppbyggingu í starfs- og tækninámi

SI fagna því að stjórnvöld hyggist hraða uppbyggingu verknámsskóla um allt land og styðji við uppbyggingu á nýjum Tækniskóla. Í umsögninni kemur fram að það rími við helstu áherslur fjármálaáætlunar um nám í takti við þarfir samfélags og fjölgun útskrifaðra úr starfs- og tækninámi. Þá segir í umsögninni að SI kalli eftir fjármögnuðum áætlunum þess efnis.

Kalla eftir fjármögnuðum vegvísi um orkuskipti

Einnig segir í umsögninni að SI hafi ítrekað lýst yfir þungum áhyggjum af stöðu raforkumála á Íslandi og hafi komið á framfæri ábendingum í lengri tíma um að allt stefni í raforkuskort, með neikvæðum afleiðingum fyrir samfélagið. SI kalli eftir fjármögnuðum vegvísi um orkuskipti. Þá segir í umsögninni að SI leggi áherslu á að gagnsæi ríki um það hvernig innheimt umhverfisgjöld séu  raunverulega nýtt til grænna fjárfestinga og nýsköpunar.

Stjórnvöld stuðli að fyrirsjáanleika fyrir kvikmyndaframleiðendur

Í umsögninni fagna SI því að stjórnvöld hafi lagt áherslu á frekari vöxt í kvikmyndaframleiðslu og hafi sýnt vilja í verki með fjáraukningu. Í niðurlagi umsagnarinnar kemur fram að SI leggi til að áætluð fjárhæð vegna endurgreiðslna kvikmyndaframleiðslu verði hækkuð með tilliti til raunfjárhæðar endurgreiðslna fyrra ára. Þannig myndu stjórnvöld stuðla að fyrirsjáanleika fyrir kvikmyndaframleiðendur og tryggja skilvirkni endurgreiðslukerfisins.

Hér er hægt að nálgast umsögn SI.