Fréttasafn



2. nóv. 2016 Almennar fréttir Menntun

Styrkir Rannís fyrir vinnustaðanám

Frestur fyrirtækja til að sækja um styrki hjá Rannís úr Vinnustaðanámssjóði á þessu ári rennur út 15. nóvember næstkomandi. Markmið sjóðsins er að hvetja fyrirtæki og stofnanir til að taka við nemendum og gera þeim kleift að ljúka tilskildu vinnustaðanámi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla. Um er að ræða löggiltar iðngreinar og heilbrigðis-, félags- og umönnunargreinar. Í sjóðnum eru um 200 milljónir króna. 

Í styrkjunum felst grunngjald fyrir hverja viku sem nemandi er í vinnustaðanámi. Styrkupphæðin er 12.000 krónur á viku og er styrkur fyrir hvern nema veittur að hámarki til 48 vikna fyrir allt árið en þó ekki lengur en sem nemur þeim heildartíma sem krafist er í vinnustaðanámi fyrir viðkomandi nám. Náms- eða starfsþjálfunarsamningur þarf að vera fyrirliggjandi fyrir hvern nema og í lok tímabils þarf að sýna fram á að nemar hafi tekið þátt í vinnustaðanámi eða starfsþjálfun.