Fréttasafn



17. mar. 2021 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Sveitarfélög endurskoði álagningu stöðuleyfisgjalda

Að mati Samtaka iðnaðarins ber öllum sveitarfélögum á landinu að endurskoða álagningu stöðuleyfisgjalda í kjölfar úrskurða úrskurðarnefndar og tryggja að gjaldtakan samræmist lögum. Þetta kemur fram í grein Steinunnar Pálmadóttur, lögfræðings hjá SI, í Morgunblaðinu þar sem hún segir ljóst  að fleiri sveitarfélög en Hafnarfjarðarbær hafi innheimt stöðuleyfisgjöld með ólögmætum hætti. Talsvert ósamræmi sé á fjárhæð gjaldsins á milli sveitarfélaga. Sveitarfélög rukki mörg hver eftir stærð gáma og allflest sveitarfélög telja sér heimilt að innheimta stöðuleyfisgjald fyrir hvern gám en ekki hvert leyfi líkt og heimildin nær aðeins til. 

Í greininni rekur Steinunn niðurstöður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um ólögmæta innheimtu Hafnarfjarðarbæjar á gjöldum vegna útgáfu stöðuleyfa fyrir gáma. Af úrskurðunum megi ráða að Hafnarfjarðarbær, ásamt öðrum sveitarfélögum, hafi ranglega staðið að álagningu stöðuleyfisgjalda enda hafi gjaldið ekki einungis verið lagt á án lagaheimildar heldur hafi einnig verið gengið of langt í álagningu gjaldsins. Hún segir Samtök iðnaðarins telji að gjaldendur eigi rétt til endurgreiðslu á stöðuleyfisgjöldum greiddum til Hafnarfjarðabæjar, sem hafi byggst á gjaldskrá sveitarfélagsins. Gjaldtökuheimild 51. gr. mannvirkjalaga verði skv. úrskurðunum ekki túlkuð á þann veg að fjárhæð gjalds vegna útgáfu stöðuleyfis og tilheyrandi eftirlits ráðist af stærð eða fjölda lausafjármuna sem stöðuleyfið taki til. Þá sé ekki heimild til að innheimta stöðuleyfisgjöld af gámum sem séu á svæðum sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu gáma í skilningi mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.