Fréttasafn



20. okt. 2023 Almennar fréttir

Svífandi stígar, Ranra x Salomon og Loftpúðinn tilnefnd

Tilkynnt hefur verið um þær þrjár vörur sem hlotið hafa tilnefningu í Hönnunarverðlaunum Íslands 2023 á vef Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.

Svifandi-stigar

Svífandi stígar eftir Birgi Þ. Jóhannsson og Laurent Ney 

Rökstuðningur dómnefndar:
Svífandi stígar er sérhannað stígakerfi sem ver náttúru fyrir ágangi og opnar hjólastólanotendum aðgengi að útivist.

Hönnun stíganna svarar brýnu kalli um styrkingu innviða í ferðaþjónustu og er leið til að uppfæra malarstíga með umhverfis- og samfélagslega ábyrgum hætti. Verkefnið er marglaga, í því mætist algild hönnun og náttúruvernd. Greiðara aðgengi að náttúru landsins hefur í för með sér heilsubót og meiri lífsgæði fyrir alla sem þess njóta. Stígarnir eru hannaðir með viðkvæmustu svæðin í huga; svo sem hraun, hverasvæði og mýrlendi án þess að undirlag stíganna verði fyrir hnjaski.

Náttúruvernd er höfð að leiðarljósi við hönnun stíganna og við uppsetningu er stefnt að lágmarksraski svo stígana megi setja upp og fjarlægja án nokkurra ummerkja. Þá fylgir smíði þeirra reglugerð um algilda hönnun og tryggir þannig fólki sem notar hjólastóla aðgengi að ósnortinni náttúru. Möguleikar þessa hóps til útivistar eru oft takmarkaðir og stígarnir bæði fjölga þessum möguleikum og einfalda þá.

Hönnuðir Birgir Þ. Jóhannsson og Laurent Ney, Alternance slf. hafa með Svífandi stígum búið til einfalda og auðvelda lausn til að auðvelda öllum aðgengi að náttúrunni.

Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar.

Ranra

RANRA x Salomon eftir þá Arnar Már Jónsson og Luke Stevens fyrir Salomon 

Rökstuðningur dómnefndar:
RANRA x Salomon er samstarf hönnunarstúdíósins RANRA við alþjóðlega útivistarmerkið Salomon um hönnun umhverfisvæns skófatnaðar.

Hönnuðirnir nálgast verkefnið út frá hugmyndafræði umhverfisverndar og sjálfbærni sem leggur línurnar fyrir efnisval og framleiðslu. Skórnir eru mjög eftirsóttir, unnir í anda „gorpcore“ tísku sem liggur á mörkum útivistar- og tískufatnaðar og höfða jafnt til þeirra sem vilja leggja áhersla á umhverfið en ekki síður hinna sem eru ekki svo meðvitaðir um það. Nýstárleg efnisnotkun, faglegt og einstakt handbragð og fagurfræði RANRA skín í gegn með áherslu á náttúrulitun, endurunnin og endurnýtanleg hráefni. Kynningarefni vörunnar í vakti mikla eftirtekt en þar var skórinn settur fram á gamansaman hátt með skírskotun í Skandinavískar matarhefðir, jarðveg, menn og dýr.

Ranra er hönnunarstofa Arnars Más Jónssonar og Luke Stevens í London og Reykjavík sem sérhæfir sig í útivistarfatnaði sem er hannaður fyrir náttúruna og borgarumhverfið. Samstarf RANRA við útivistarmerkið Salomon hófst árið 2022 og hefur vakið heimsathygli. Þetta er í annað sinn sem RANRA hannar Cross Pro skóna sem Salomon framleiðir. 

Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar.

Loftpudinn

Loftpúðinn eftir Fléttu, Hrefnu Sigurðardóttur og Birtu Rós Brynjólfsdóttur fyrir Fólk Reykjavík

Rökstuðningur dómnefndar:
Loftpúðinn er ný vara sem Stúdíó Flétta hannaði fyrir Fólk Reykjavík.

Loftpúðinn er dæmi um nýsköpun þar sem hugað er að hringrásarhagkerfi við hönnun vörunnar. Rusli frá iðnaði sem áður var hvorki hægt að selja eða nýta er umbreytt í sterka, fjölnota púða. Púðarnir eru 96% endurunnir og eina nýja hráefnið er í reiminni og handfanginu. Flétta hugsar alla leið í endurvinnslunni - sem minnst er átt við efniviðinn og hægt er að skilja hráefnin í sundur þegar líftíma vörunnar lýkur.

Hönnunarstofan Flétta var stofnuð árið 2018 af vöruhönnuðunum Birtu Rós Brynjólfsdóttur og Hrefnu Sigurðardóttur sem hafa frá stofnun einbeitt sér að hringrásavænni hönnun á einstaklega skapandi hátt. Púðarnir voru hannaðir í samstarfi við hönnunarfyrirtækið FÓLK árið 2020 fyrir vörulínu þeirra, Hringrásarvæn hönnun, og gerðir úr notuðum loftpúðum bíla sem að öðrum kosti hefðu farið til urðunar. Púðarnir eru meðal annars fengnir frá Netpörtum, umhverfisvottaðri bílapartasölu. Fyllingarefnið er efni sem fellur til við framleiðslu á útivistarfatnaði 66° Norður. Púðarnir eru saumaðir hjá danskri saumastofu þar sem fólk sem á erfitt með að fóta sig í venjulegu starfsumhverfi vinnur.

Loftpúðinn er gott dæmi um raunbirtingu nýs hugsunarháttar sem nú er að taka við í hönnunargeiranum og möguleikana sem þar leynast.

Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar.

 

Í dómnefnd sitja Sigríður Sigurjónsdóttir, formaður dómnefndar, Þorleifur Gunnar Gíslason, Eva María Árnadóttir, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Halldór Eiríksson, Erling Jóhannesson, Margrét Kristín Sigurðardóttir og Tor Inge Hjemdal. Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.