Fréttasafn



13. sep. 2021 Almennar fréttir

Það sem virkar er hvetjandi skattkerfi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Miðflokki, sagði á kosningafundi SI að megin vandamálið væri að vinstri flokkar, og reyndar því miður stjórnkerfið líka, að mjög verulegu leyti, lítur svo á að þeim mun hærri sem skattarnir séu þeim mun meiri verði tekjur ríkisins og þeim mun meira sé hægt að eyða í allskonar samfélagsleg verkefni. „En það virkar ekki þannig, ef það virkaði þannig þá ætti alltaf að hækka skatta þangað til menn lenda í þeirri stöðu sem að sænski rithöfundurinn og vinstri konan Astrid Lindgren lenti í og sá loks ástæðu til að skrifa grein þegar hún var farin að borga 102% skatt. Það gengur ekki upp, það skilar ekki á endanum meiri velferð.“

Sigmundur Davíð sagði að það sem gengi upp og það sem virkar sé hvetjandi skattkerfi. „Sem að ýtir undir meiri verðmætasköpun og fyrir vikið meiri tekjur og það sem við þurfum á að halda til þess að standa undir velferðinni. Því að skattar, ólíkt því sem að margir virðast halda, búa ekki til verðmæti. Þeir eru lagðir á verðmætasköpunina. En ef að kerfið er til þess fallið að draga úr verðmætasköpuninni þá dregur það á endanum úr velsæld í samfélaginu.“

Hann nefndi dæmi af Írlandi. „Sem að ekki alls fyrir löngu var fátækasta ríki Vestur-Evrópu. Nú er það líklega best stæða, svona einhvers staðar í grennd við Sviss og Noreg, eftir hvað? Eftir skattalækkanir og einfaldara regluverk þá hefur velsæld á Írlandi aukist til mikilla muna.“

Á fundinum nefndi Sigmundur Davíð einnig að til að geta sótt tækifærin þarf að byrja á því að opna fyrir þau en það sé töluverður skortur á því ennþá á Íslandi þó það hafi orðið úrbætur á ýmsum sviðum á undanförnum árum. „Töluverður skortur er á því að menn séu búnir að opna nógu vel fyrir tækifærin til að geta farið og sótt þau.“ Hann sagði að ef menn séu markvisst að leita eftir fjárfestingu, til dæmis erlendis frá, þá þurfi að vera hægt að bjóða upp á stöðugt aðlaðandi umhverfi. „Það þarf ekki endilega að felast í styrkjum. Það sem skiptir mestu máli er að regluverkið sé í lagi, sé ekki of íþyngjandi, það er orðið allt of íþyngjandi á Íslandi, og að skattaumhverfið sé til þess fallið að menn sjái sér hag í því að fjárfesta á Íslandi.“

Þá kom fram í máli Sigmundar Davíðs að við höfum séð það með mörg nýsköpunarfyrirtæki, ekki bara á Íslandi heldur víða um Evrópu, að þegar þau ná ákveðinni stærð flytji þau gjarnan til annarra landa. „Til Sviss, Lettlands jafnvel, Hollands, Írlands, auðvitað ekki hvað síst. En það er vegna þess að það eru lönd sem að bjóða upp á rekstrarumhverfi til þess að þessi fyrirtæki geti vaxið og dafnað.“

Si_kosningafundur_2021-21Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á kosningafundi SI.

Hér er hægt að nálgast kosningafund SI:

https://vimeo.com/600871564