Fréttasafn



11. ágú. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Þannig týnist tíminn

Það er vel við hæfi á þeim tímamótum sem nú eru að eiga sér stað í starfs- og lagaumhverfi nýsköpunar á Íslandi að Samtök iðnaðarins gefi út þetta tímarit helgað nýsköpun. Sú fjárfesting í framtíðinni sem Alþingi hefur nú samþykkt og leitt í lög hefur verið Samtökum iðnaðarins og fjölmörgum félagsmönnum okkar hjartans mál um langa hríð. Það er því ærin ástæða til að gleðjast. Hækkun á hlutfalli og hámarksfjárhæð endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar, hækkun skattaafsláttar til einstaklinga vegna fjárfestinga í sprotafyrirtækjum og auknar heimildir lífeyrissjóða til fjár festinga í sjóðum sem fjárfesta eingöngu í litlum og meðalstórum fyrirtækjum eru merki um skýran vilja stjórnvalda til að bæta samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Aukning á beinum framlögum hins opinbera til nýsköpunar og rannsókna er löngu tímabær og á vafalaust eftir að hafa margvísleg jákvæð áhrif á næstu árum. 

Á þessu vori íslenskrar nýsköpunar er áhugavert að líta um öxl og kanna hverju við höfum áorkað í þessum efnum. Í skýrslu Samtaka atvinnulífsins, Deloitte og Nýsköpunarsjóðs, Umhverfi til nýsköpunar á Íslandi, sem kom út í maí 2001, var leitast við að draga fram drifkrafta nýsköpunar og hindranir sem stæðu henni fyrir þrifum á þeim tímapunkti. Þar er réttilega bent á þá staðreynd sem er enn góð og gild að hindranir í umhverfi til nýsköpunar dragi ekki úr framkvæmdum frumkvöðla heldur sói krafti þeirra í verðmætalitla vinnu. Í skýrslunni er bent á fjölmarga veikleika í þáverandi nýsköpunarumhverfi hérlendis – aðgengi að fjármagni var takmarkað og sömuleiðis dýrara en þekktist erlendis, styrkjakerfi var flókið, arðsemiskröfur fjárfesta voru háar, flókið skattkerfi sem byggðist meðal annars á úreltu formi skattlagningar, stefnuleysi stjórnvalda og almennt takmarkaðra hvata. 

Ljóst er að margt hefur breyst til batnaðar á síðustu tuttugu árum í starfsumhverfi nýsköpunar á Íslandi, ekki síst eftir þær mikilvægu breytingar sem nú hafa nýlega verið lögfestar. Viðhorfsbreytingin er áþreifanleg og almennur stuðningur við aðgerðir í nýsköpunarmálum. Í upphafi þessa árs voru þó birtar niðurstöður viðamikillar könnunar á vegum Northstack, Gallup og Tækniþróunarsjóðs um umhverfi nýsköpunar á Íslandi. Þrátt fyrir að þátttakendur, sem komu að miklum meirihluta úr litlum nýsköpunarfyrirtækjum, væru almennt jákvæðir gagnvart framtíð nýsköpunar á Íslandi taldi meirihluti svarenda að Ísland væri ekki góður staður fyrir fyrirtæki í örum vexti eða alþjóðleg nýsköpunarfyrirtæki. Einkum töldu svarendur að fjármögnunarkerfið stæði nýsköpunarfyrirtækjum fyrir þrifum því erfitt væri að fjármagna fyrirtækin, hvort heldur með aðkomu innlendra eða erlendra fjárfesta, og að bankaþjónusta sem í boði er á Íslandi henti illa eða mjög illa fyrir nýsköpunarfyrirtæki. 

Þetta er skýr vísbending um að enn er verk að vinna. Þær lagabreytingar sem nú hafa verið samþykktar og metnaðarfull stefna stjórnvalda og hagsmunaaðila í nýsköpunarmálum munu vonandi hjálpa til við að koma Íslandi fljótt á þann stall að vera ákjósanlegur staður fyrir fólk og fyrirtæki í nýsköpun. Æskilegast hefði þó verið að ráðast í þessar aðgerðir mun fyrr með markvissum skrefum því samkeppnislönd okkar eru mörg búin að ná drjúgu forskoti og tíminn er af skornum skammti – hann virðist einfaldlega týnast mun hraðar nú á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar en fyrr. 

En hér erum við stödd, fáum ekki breytt því sem liðið er og horfum nú til framtíðar. Markmiðið skal ávallt vera að gera betur í dag en í gær og þannig náum við framförum. Rétt eins og með breytingar á starfsumhverfinu tekur nýsköpun tíma. Nýsköpunarferli getur spannað mörg ár þar til afurð eða ávöxtur hugmyndar er fullþroskaður og því þurfum við að temja okkur þolinmæði. Órjúfanlegur hluti nýsköpunar er sömuleiðis að ekki bera allar hugmyndir ávöxt. Það er staðreynd sem við þurfum að taka tillit til og virða. Merkustu upp finningar og tækninýjungar sögunnar eru þannig margar hverjar afrakstur fjölda misheppnaðra tilrauna og verkefna. 

Ef okkur lánast að halda áfram á þeirri braut sem nú hefur verið vörðuð fyrir íslenska nýsköpunarstarfsemi og á þeim hraða sem sæmir því kraftmikla starfsumhverfi sem nýsköpun er, er ég afar bjartsýnn fyrir hönd Íslands framtíðarinnar. Ég skora á ykkur öll sem starfið með einum eða öðrum hætti við nýsköpun að láta verkin tala og virkja nú hugvitið sem aldrei fyrr. Þannig rennum við styrkari stoðum undir atvinnuuppbyggingu, ýtum undir framþróun í rótgrónum atvinnugreinum og byggjum upp nýjar og arðsamar greinar, samfélaginu öllu til heilla.

ÁRNI SIGURJÓNSSON 

Formaður Samtaka iðnaðarins


Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_