Fréttasafn



15. nóv. 2021 Almennar fréttir Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Þarf græna hvata til að ná meiri árangri í loftslagsmálum

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, tók þátt í umræðum í Silfrinu sem Þóra Arnórsdóttir stýrði þar sem rætt var meðal annars um loftslagsmál, íbúðarmarkaðinn og stöðuna á Covid-19. Í umræðum um loftslagsmálin sagði Sigurður það sem væri áhugavert og talsverð breyting á stuttum tíma, kannski bara á örfáum árum, væri það að fyrirtækin eru full metnaðar varðandi loftslagsmálin og vilji ná árangri. „Það má eiginlega segja að loftslagsmálin svona snúist um tvennt, þetta gengur út á það á endanum að finna einhverjar lausnir, ekki bara setja sér markmið og stuðla að vitundarvakninu. Þannig að það er annars vegar orkuöflun á heimsvísu og hins vegar er það nýsköpun og þróun sem leiðir til nýrrar tækni. Þannig að það má segja að við séum í ákveðinni iðnbyltingu hvað það varðar, endurhugsa ferla og annað. Við höfum mikla möguleika á því að í fyrsta lagi að hjálpa öðrum að ná árangri af því við búum yfir þekkingu og grænum lausnum og hér eru auðvitað heilmikil nýsköpun í gangi á þessum sviðum. Eins og við höfum séð nýlega þegar krónprins Dana kom ásamt sendinefnd til landsins til þess að eiga samtöl um þessi mál. Við getum sannarlega gert það. En svo þurfum við að vinna heimavinnunni okkar og ná árangri hér.“

Samvinna atvinnulífs og stjórnvalda er lykilatriðið

Sigurður sagði lykilatriðið vera samvinna á milli atvinnulífs og stjórnvalda. „Að hún verði nægilega skilvirk þannig að ekki bara lausnirnar verði til heldur líka að þær verði innleiddar. Þar þurfa stjórnvöld að setja upp nægilega skýra hvata þannig að þessar grænu fjárfestingar verði á endanum að veruleika.“

Sigurður sagði aðspurður að það vanti heilmikið upp á að setja ramma. „Ég er mjög vongóður um það að við munum sjá kannski einhvern meiri metnað í þeim efnum þegar ný ríkisstjórn sýnir á spilin í stjórnarsáttmála. Ég er vongóður um það að við munum sjá meiri áform um þessar fjárfestingar og græna hvata. Því það er sannarlega það sem þarf til þess að ná árangri í þessum efnum.“

Þá kom fram í máli Sigurðar að þessi grænu umskipti sem eru framundan þurfi að vera réttlát. „Hver erum við að segja við Indverja til dæmis í þessu tilliti að hætta að brenna kolum sem er hagkvæmt fyrir þau að gera og annað hvort að rýra sín lífsgæði eða fara í aðra orkugjafa sem eru miklu kostnaðarsamari.“

Þarf að vera efnahagslega hagkvæmt fyrir alla

Sigurður sagði það líka vera hugleiðingu fyrir okkur að orkuskiptin hér á landi sem hafi lagt grunn að okkar árangri sögulega í þessum málum hafi orðið vegna þess að þau voru efnahagslega hagkvæm, það væri rafvæðing og svo hitaveituvæðing. „Það hlýtur að vera grunnurinn að því að við náum árangri í loftslagsmálunum á heimsvísu að þetta verði efnahagslega hagkvæmt og þá auðvitað koma stjórnvöld við sögu til þess að setja upp réttu hvatana þannig að það gangi eftir. Bæði í hverju hagkerfi fyrir sig, síðan líka eins og þróunarlöndin og aðstoð við þau.“

Þróunin gæti orðið miklu hraðari en við sjáum fyrir

„Ef maður leyfir sér að vera aðeins bjartsýnn þá held ég nú að það er ekkert ótrúlegt að þróunin verði miklu hraðari en við sjáum fyrir af því framvindan er ekki alltaf línuleg,“ sagði Sigurður. Hann sagði það  ekkert ósennilegt að það verði stór stökk. „Um leið og ný tækni er orðin til þá verður hún innleidd hraðar. Það er nýsköpun og mikil gróska í þessum efnum. Ég var í París í vikunni þar sem var vetnisráðstefna á vegum íslenskra og franskra aðila á vegum íslensk-franska viðskiptaráðsins. Þá til dæmis var kynning frá Airbus sem var að segja frá verkefni um vetningsbúnað flugvélar sem á að koma á markað 2035. Það er auðvitað mikil losun í fluginu þannig að þetta er eitt lítið dæmi um það hvernig fyrirtækin eru á fleygiferð að finna lausnir sem að henta markaðnum og taka á þessum málum.“

Í þættinum var einnig rætt um stöðuna á íbúðamarkaði og áhrif Covid-19. 

Silfrið á RÚV, 14. nóvember 2021.

RÚV, 14. nóvember 2021.

Silfrid-a-RUV-14-11-2021_2Þóra Arnórsdóttir stýrði umræðunum með þátttöku Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, Ernu Bjarnadóttur, varaþingmanni og verkefnisstjóra hjá MS, Stefáni Gíslasyni, umhverfisfræðingi og Steinunni Þórðardóttur, öldrunarlækni og formanni læknaráðs LSH.

RUV-Silfrid-14-11-2021Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.