Fréttasafn



20. sep. 2017 Almennar fréttir

Þróttur í atvinnulífinu þrátt fyrir óvissu í stjórnmálunum

„Það er þróttur í atvinnulífinu nú um stundir og svo verður áfram þótt óvissa ríki í stjórnmálunum,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins í frétt Morgunblaðsins í dag um áhrif þess að ríkisstjórnin hafi fallið eftir setu í 247 daga. „Ný ríkisstjórn verður vonandi mynduð sem fyrst þannig að hægt verði að halda áfram með stór mál og byggja upp framtíð Íslands. Efnahagslegur og pólitískur stöðugleiki er mikið hagsmunamál fyrir alla landsmenn enda er hætt við því að fólk haldi almennt að sér höndum á óvissutímum. Endurskoðun peningastefnu var eitt lykilverkefni ríkisstjórnarinnar og vonandi mun ný ríkisstjórn leiða það mál til lykta.“ Sigurður nefnir einnig að 
samstaða sé um uppbyggingu innviða til að byggja undir framtíðarvöxt. „Slík samstaða ætti að leiða til framkvæmda fljótt enda eru að skapast aðstæður í hagkerfinu fyrir slíka uppbyggingu.“

Óvissa getur haft neikvæð áhrif á hagvöxt

Í fréttinni er einnig rætt við Ásdísi Kristjánsdóttur, forstöðumann efnahagssviðs SA, sem segir að óvissa sé alltaf slæm, hvort sem hún er pólitísk eða af öðrum toga. „Ef hér mun ríkja óvissa til langs tíma þá getur hún hæglega komið niður á fjárfestingu og þar með haft neikvæð áhrif á vöxtinn í hagkerfinu.“ Þá segir hún að það séu vísbendingar um að farið sé að hægja á vexti í hagkerfinu. „Nýjustu hagvaxtartölur Hagstofunnar benda til þess að við séum að öllum líkindum á toppi núverandi uppsveiflu.“

Morgunblaðið, 20. september 2017.