Fréttasafn



18. ágú. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Tölvuleikir eru eins og gott viský

HILMAR VEIGAR PÉTURSSON er forstjóri tölvuleikjaframleiðandans CCP. Þar starfa um þrjú hundruð manns. Á þeim 23 árum sem fyrirtækið hefur verið starfrækt hefur fyrirtækið gefið út stöðugar uppfærslur við flaggskip sitt, fjölspilunarleikinn EVE Online, auk annarra leikja, m.a. á sviði sýndarveruleika. Árið 2018 keypti kóreski leikjaframleiðandinn Pearl Abyss CCP og starfar fyrir tækið nú sem sjálfstæð heild og rekur skrifstofur og framleiðsludeildir í Reykjavík, London og Sjanghæ. CCP hefur flutt starfsemi sína í nýjar sérhannaðar höfuðstöðvar á háskólasvæðinu í Vatnsmýri.

Hvert ár sem leikurinn er til verður hann bara betri. Bæði vegna áframhaldandi þróunar CCP en einnig vegna þeirra ævintýra og sagna sem leikmenn skapa á degi hverjum.

 

EVE Online kom fyrst út árið 2003 og er enn í dag í mikilli sókn. Leikurinn er á leiðinni á Kínamarkað í samstarfi við nýjan útgefanda og um tvær milljónir manna um heim allan hafa forskráð sig fyrir farsímaútgáfu byggðri á leiknum, sem ber heitið EVE Echos. 

Hilmar Veigar hefur engan hug á að setjast í helgan stein eftir söluna á fyrirtækinu, þó hann segist oft fá spurninguna um hvenær hann ætli að hætta og hafa það náðugt. „Hvað annað ætti ég svo sem að gera? Ég elska EVE Online og CCP og vil hvergi annars staðar vera,“ segir hann og hlær. Hilmar Veigar hefur lengi starfað innan nýsköpunargeirans, en hann hóf störf hjá hugbúnaðarfyrirtækinu OZ árið 1996. „OZ var að gera fáránlega kúl hluti, sem voru kannski fimmtíu árum á undan sínum samtíma. Ég held að samtíminn sé ekki ennþá tilbúinn fyrir það sem OZ var að gera þá. Það sem við vorum að gera, sem var meðal annars þessi sýndarveruleiki, er mögulega eitthvað sem mun ná fótfestu og verða gert eftir tíu ár. Það kom svo smám saman í ljós eftir því sem árin liðu að heimurinn var ekki alveg tilbúinn fyrir það sem við vorum að gera þarna,“ segir Hilmar Veigar og hlær. 

HilmarCCP_806A4206

„Algjörlega sturlað plan“ 

Nokkrir fyrrverandi starfsmenn úr OZ tóku sig saman eftir að félagið breytti um stefnu yfir í samskiptalausnir fyrir farsíma og ákváðu að reyna að búa eitthvað til úr allri þeirri þekkingu og þjálfun, sem væri nær fólki. „OZ hafði haft hugmyndir um að búa til tölvuleik, en þar var ákveðið að fara út í farsímalausnir í stað þess. En eftir að OZ breytti um stefnu þá ákváðu nokkrir fyrrum OZ­arar að sú hugmynd að búa til tölvuleik væri góð hugmynd. CCP var sett á laggirnar til að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd. Gera alvöru úr því að búa til fyrsta alþjóðlega tölvuleikinn sem hefur verið búinn til á Íslandi og gera hann að fjölspilunarþátttökuleik um geimskip. Þetta var að mörgu leyti algjörlega sturlað plan,“ segir hann og hlær. 

 Þarna á Hilmar Veigar auðvitað við tölvuleik inn EVE Online. „Þessi leikur er ennþá fram úrstefnulegur í dag. Leikurinn er enn í mikilli sókn og til marks um það hafa um þrjú hundruð þúsund nýir spilarar byrjað að spila leikinn það sem af er þessu ári. 

EVE Online er í stórsókn á markaðssviði, sem er alveg ótrúlegt því leikurinn verður 17 ára gamall í ár. En tölvuleikir eru dálítið eins og gott viskí. Sautján ára viskí er betra en tíu ára viskí; tuttugu ára viskí er betra en sautján ára viskí og svo framvegis. Hvert ár sem leikurinn er til verður hann bara betri. Bæði vegna áfram haldandi þróunar CCP en einnig vegna þeirra ævintýra og sagna sem leikmenn skapa á degi hverjum.“

Snýst fyrst og fremst um fólk 

Hilmar Veigar er þannig með reyndustu frumkvöðlum hér á landi og hann hefur skýra sýn á það hvernig má stórbæta umhverfið hér á landi. Það er samfélaginu dýrt að veðja á nýsköpun, en sennilega reynist það dýrara til framtíðar að gera það ekki. „Þetta snýst fyrst og fremst um það að gera Ísland samkeppnishæft. Það er gríðarleg samkeppni í heiminum um ný sköpun, og starfsfólk víðs vegar um heiminn getur með mun auðveldari hætti en nokkurn tíma áður fært sig um set. Heimurinn er öðru vísi núna, 2020, en fyrir fimm árum. Sam keppnishæfni er mikilvægust þegar kemur að nýsköpun, og ef við förum að brjóta það hugtak niður þá snýst þetta fyrst og fremst um fólk. Það að þú sért samkeppnis hæfur þýðir að þitt fólk vill vera hér frekar en annars staðar,“ útskýrir Hilmar Veigar og segir mannauðinn svo aftur byggja á menntun. 

„Gæði menntakerfis eru aðföngin sem stýra þessari samkeppnishæfni. Þar á eftir kemur kostnaðurinn og fjármögnun. Þar stendur Ísland illa því mörg lönd eru búin að búa til kerfi sem niðurgreiða eða taka þátt í þeirri áhættu sem nýsköpun felur í sér. Lönd gera þetta því samkeppnin og ávinningurinn eru einfaldlega svo mikil. Við höfum bent á það núna, í ábyggilega svona tólf ár, að við þurfum að innleiða slík verkfæri. Það er yfirleitt gert í gegnum endurgreiðslukerfi á fjárfestingum til nýsköpunar. Við höfum loksins búið til þannig kerfi hér og það er frábært, en meinið er að kerfið leyfir bara lítil verkefni því það er þak á endurgreiðslunum. Þá endum við með því að fá bara lítil verkefni, en við eigum að líta til þess að fá til okkar stór verkefni. Það er mjög mikilvægt að afnema þakið, sem ég kalla bara glerþakið á íslenskri nýsköpun. Ég get ekki oftúlkað mikilvægi þess að við erum ekki samkeppnishæf þegar við búum til þak á stærð nýsköpunarverkefna. Það liggur einfaldlega í hlutarins eðli.“

HilmarCCP_806A4154


Kveikt á öllum perum – en kúltúrbreytingu vantar 

Hilmar Veigar segir þetta tvennt skipta almestu máli. Annars vegar að framleiða hæfileikaríkt starfs fólk í gegnum menntakerfið og hins vegar að kostnaðurinn við það starfsfólk sé samkeppnishæfur við önnur hagkerfi. „Það er bara þetta tvennt. Allt annað skiptir eiginlega engu máli. Við gætum talið upp endalaust af smáatriðum sem mætti bæta, en það er bara til að beina athyglinni frá þessum aðalatriðum. Fyrirtæki staðsetja ný sköpun út frá þessu tvennu.“

Finnst þér þú tala fyrir daufum eyrum? „Nei, ekki þegar kemur að fólki í ríkisstjórn. Það er kveikt á öllum ljósum þar hvað þetta varðar. Þegar maður talar við ráðherra eða einstaklinga sem hafa með þetta að gera þá skilja þau þetta – enda fluggreint fólk og mikið reynt – það er samt eins og batteríið í heild skilji þetta ekki frá upphafi til enda. Þú getur rætt við einstaklinga og skýrt þetta út en það þarf kúltúrbreytingu. Það fer mikil vinna í það að halda á lofti þessum sjónarmiðum í umræðunni, ýta á kúltúrinn í opinbera kerfinu og Íslandi almennt. Kúltúrinn er byggður í kringum þá grunnatvinnuvegi sem við höfum, en ekki atvinnuvegina sem við ætlum að eiga,“ segir hann. 

„Það að ætla að stefna fram á við í áttina að nýsköpun er áskorun, hvort sem um ræðir opinbera stjórnsýslu, fólkið í landinu, jafnvel fyrirtæki eins og okkar. CCP er steríótýpa af nýsköpunarfyrirtæki, meira að segja við eigum stundum erfitt með nýsköpun inn í okkar fyrirtæki því fyrirtækið er byggt upp á því sem við höfum nú þegar yfir að ráða. Auðvitað er ótrúlega framúrstefnulegt að búa til einhvern geimskipaleik í gömlu útgerðarhúsi úti á Granda, en oft endar maður á að festast í þessum daglega rekstri. Það þarf endalaust að vera að minna sig og aðra á að halda þessum sjónarmiðum á lofti.“ 

Umræðan er þrátt fyrir allt á fleygiferð. Áherslurnar verða sífellt meira á umhverfið; grænar lausnir og hagkerfi. Grunn atvinnuvegir Íslendinga, sjávarútvegur, iðnaður og ferðaþjónusta, ganga allir á auðlindir landsins. Hilmar Veigar minnir á mikilvægi þess að huga að framtíðinni og hverjar stoðir atvinnulífsins eigi að verða þá. Það blasi ein faldlega við að nýsköpun muni spila stærstu rulluna þar. „En við erum að minnsta kosti búin að koma þessu endurgreiðslukerfi á, sem er gott. Þakið er 1,1 milljarður króna á ári sem má „nýskapa með,“ ef svo má að orði komast. Það eru vitaskuld stórar upphæðir en nýsköpunarverkefni eru risastór. CCP er að eyða miklu hærri fjárhæðum en það. Össur og Marel einnig. Ef fólk vill hvetja til nýsköpunar þá á að mínu mati að hvetja fyrirtækin sem eru komin lengst til að gera meira. Auðvitað
á að peppa grasrótina og hvetja hana til að sækja fram, en sóknaraflið, vogaraflið er mest þegar þú ert kominn af stað,“ segir Hilmar Veigar.

Til þess að gera Ísland að einhvers konar nýsköpunarparadís þarf að byrja á því sem maður hefur. Við markaðssetjum Ísland með árangri.

 

Árangur er besta markaðssetningin 

„Til þess að gera Ísland að einhvers konar nýsköpunarparadís þarf að byrja á því sem maður hefur. Við markaðssetjum Ísland með árangri. Ef að hér næst árangur hjá heimamönn um þá fer fólk að hafa áhuga á að koma hingað. Þar sem við náum árangri, Íslendingasögurnar fyrir þúsund árum, Halldór Laxness fyrir fimmtíu árum, Hildur Guðnadóttir núna; þarna erum við að ná árangri. Söluefni okkar Íslendinga er til dæmis EVE Online, Björk, Sigur Rós, Össur og Marel. Fólk horfir á svona hluti og hugsar, þarna er eitthvað í gangi,“ segir hann og heldur áfram. 

„Árangur íslenska landsliðsins í fótbolta er miklu meiri markaðssetning en einhver bæklingur um hvað er gott að vera á Íslandi og hvað er stutt að keyra í vinnuna. Eins og með Kísildalinn, hann varð til því fólk var að ná árangri þar svo aðrir sem höfðu metnað til hins sama sögðu, ókei, við förum þangað. Á sviði nýsköpunar er markaðssetningin okkar CCP, Össur og Marel. Íslendingar eiga að monta sig af þessu, frekar en af grænni orku eða fína leikskólakerfinu okkar – það eru allt hlutir sem koma seinna í ferlinu. Ef þig langar að koma með risastórt nýsköpunarverkefni til Íslands þá eru það hlutir sem þú athugar með eftir að þú færð áhugann á því að koma hingað. Áhuginn kviknar því einhver hugsar, af hverju ætli þessi EVE Online leikur sé búinn til á Íslandi? Hvað ætli sé í vatninu þar? Svo lendirðu í alls konar veseni síðar – eins og til dæmis þeirri staðreynd sem ég þreytist ekki að ræða um að það er þak á endurgreiðslukerfinu,“ segir Hilmar Veigar og hlær.

Eins og að þjálfa íþróttalið 

Mörg nýsköpunarfyrirtæki ná ekki alla leið. Sögu OZ þekkja flestir og sama má segja um fyrirtæki á borð við Plain Vanilla. Oft er umræðan um metnaðarfull verkefni sem ekki ganga upp að lokum neikvæð. Hilmar Veigar segir að bæði þessi fyrirtæki, og fleiri til sem farið hafa sömu leið, séu uppskriftin að því að ná árangri síðar meir. „Til þess að ná árangri, þarftu að þjálfa mannskapinn. Þjálfun, því miður, verður fyrst og fremst í gegnum það að gera mistök. Þeim mun fleiri mistök sem þú gerir, þeim mun þjálfaðri verður þú. Þetta er pínulítið eins og að þjálfa íþróttalið. Þú sendir liðið í keppni og hvað gerist? Þau byrja á að tapa. Svo fara þau að vinna,“ útskýrir hann og segir það sama eiga við um nýsköpun.

Ef fólk vill hvetja til nýsköpunar þá á að mínu mati að hvetja fyrirtækin sem eru komin lengst til að gera meira.

Tuttugu ár í þrjá nýsköpunarrisa í viðbót

Í huga Hilmars Veigars er mikilvægt að samfélagið stefni saman að því að búa til þrjú stór ný sköpunarfyrirtæki, líkt og Össur, Marel og CCP, í viðbót. „Það mun taka tuttugu ár. Þá þarf fyrst að fjárfesta í hundrað fyrirtækjum, helmingurinn fer á hausinn. Þá tökum við fólkið sem fór á hausinn og dreifum því í þau fimmtíu fyrirtæki sem eftir standa og svo koll af kolli þar til að af hundrað fyrirtækjum og kannski þúsund manns, endarðu með þrjú fyrirtæki og þrjú hundruð manns.“ 

Þessa heildarmynd þurfi að hafa í huga. „Þú byrjar með fólkið í unglingaflokki, svo ferð það í meistaraflokk og þaðan í landsliðið. Svoleiðis er þetta bara. Okkur vantar þessa heildarmynd. Íslendingar eru í grunninn ekkert sérstaklega góðir í því að búa til einhverjar áætlanir langt fram í tímann. Nema reyndar, þegar við bjuggum til landsliðið sem komst á HM. Hvernig gerðum við það? Við byrjuðum á því að byggja upp innifótboltavelli, þjálfa þjálfarana, uppfæra þekkingu félaganna; svo liðu tíu ár og svo önnur tíu ár, þjálfararnir verða betri, leikmennirnir betri, aðstaðan betri – svo allt í einu erum við með landslið á HM.“ 

Hann segir margt líkt með uppbyggingu í nýsköpun og uppbyggingu á íþróttastarfi. „Nú eigum við þessi þrjú fyrirtæki sem hafa þjálfað mannskapinn. Við eigum líka fólk sem er í deildinni fyrir neðan, og hafa verið þar um skeið. Við erum komin á þann stað að við erum farin að eiga eitthvað umhverfi sem hægt er að vinna með og við sjáum það í innlendri og erlendri fjárfestingu sem fylgir með. Við höfum heilmikið að byggja á og nú þarf að fylgja því eftir. Við þurfum að hækka þakið, liðka fyrir erlendri fjárfestingu og byggja á nýsköpun til framtíðar.“

Stærri en kvikmynda- og tónlistarbransinn til samans 

„Fyrsti tölvuleikurinn er svona fimmtíu ára gamall, en sem iðnaður er tölvuleikjabransinn um það bil tuttugu ára. Núna er þetta stærsti afþreyingariðnaður í heimi. Tölvuleikir eru stærri en kvikmyndir og tónlist samanlagt. Tölvuleikjaiðnaðurinn er í gríðar legum vexti og það sér ekkert fyrir endann á því. Innan skamms verður hann stærri en kvikmyndir, tónlist og íþróttir til samans.“

Apple selur síma til að fá þig til að spila tölvuleiki 

„Stærstu fyrirtæki í heimi, hvort sem þú horfir á Facebook, Apple eða Google, fá risastóran skerf af sínum tekjum frá tölvuleikjum. Arðsamasti hluti rekstrar Apple er að selja tölvuleiki í AppStore. Það er stærri bisness en að selja símana, því þar græða þeir peningana. Það að kaupa síma er bara aðferð til að fá þig til að spila tölvuleiki.“

 

VIÐTAL Ólöf Skaftadóttir

LJÓSMYNDIR Baldur Kristjánsson

Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_