Fréttasafn



8. nóv. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda Starfsumhverfi

Tryggja samkeppnisforskot kvikmyndagerðar á Íslandi

Það stefnir í annað stærsta framleiðsluár í kvikmynda- og sjónvarpsiðnaði hér á landi samkvæmt nýjustu tölum frá Hagstofunni. Árs­velta iðnaðarins hefur þre­fald­ast á einum ára­tug, vel á þriðja þús­und manns starfa við kvik­mynda­gerð og fjöldi fyr­ir­tækja í grein­inni hefur tvö­fald­ast und­an­farin fimm ár. Þannig hefur tek­ist að byggja upp sérfræðiþekk­ingu innan greinarinnar. Vegna endurgreiðslukerf­is­ fyrir kvikmyndaframleiðslu hefur byggst upp arðbær atvinnu­grein sem skilar arði til sam­fé­lags­ins í formi starfa, gjald­eyr­is­tekna og efl­ingar á ímynd Íslands. etta segir Lilja Björk Guðmunsdóttir, viðskiptastjóri Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda á iðnaðar- og hugverkasviði SI, í grein á Vísi. Hún segir að í því samhengi sé mikilvægt að huga að samkeppnisforskoti Íslands. „Við þurfum að hafa eitthvað fram að færa, eitthvað umfram önnur ríki. Það mun koma í hlut nýrrar ríkisstjórnar að styrkja endurgreiðslukerfið enn frekar og tryggja samkeppnisforskot Íslands þannig að Ísland verði fyrsta val fyrir erlenda kvikmynda- og sjónvarpsgerð.“

Ísland eftirsóknarverður tökustaður

Lilja segir í greininni að kvikmynda- og sjónvarpsiðnaður á Íslandi hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár. Áhugi á Íslandi sem tökustað fer ekki fram hjá neinum þar sem íslenskri náttúru bregður fyrir í hinum ýmsu erlendu framleiðsluverkefnum. „Að hluta til getum við þakkað náttúrufegurð Íslands fyrir áhugann, en þrátt fyrir einstakt landslag okkar dugar það eitt og sér ekki til í vaxandi alþjóðlegri samkeppni. Meira þarf til. Ísland, líkt og önnur Evrópuríki, hefur stuðst við endurgreiðslukerfi fyrir kvikmyndaframleiðslu frá árinu 1999. Endurgreiðslukerfi fyrir kvikmyndaframleiðslu byggir á lögum nr. 43/1999 um tímabundnar endurgreiðslur og er kvikmyndaframleiðendum gert kleift að fá allt að 25% endurgreiðslu af framleiðslukostnaði sem fellur til hér á landi. Ekki öll verkefni eiga rétt á endurgreiðslum. Framleiðslan þarf að uppfylla ákveðin skilyrði; að koma íslenskri menningu á framfæri, kynna sögu lands eða náttúru eða að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að stuðla að aukinni reynslu, þekkingu og listrænum metnaði þeirra sem að framleiðslunni standa. Það má segja að þessir tveir þættir vinni saman og geri Ísland að eftirsóknarverðum tökustað fyrir kvikmyndaframleiðendur, þ.e. einstök náttúrufegurð Íslands og einfalt endurgreiðslukerfi sem byggir á landkynningu.“

Fjárfesting í kvikmyndaframleiðslu skilar sér margfalt til baka

Í greininni segir Lilja að endurgreiðslukerfið er hugsað sem hvati til þess að auka samkeppnishæfni íslenskrar kvikmyndagerðar. „Það þarf ekki að fara mörgum orðum um smæð íslenska markaðarins og má í því samhengi benda á að fyrir setningu endurgreiðslukerfisins var kvikmynda- og sjónvarpsframleiðsla hér á landi, þrátt fyrir mikla hæfileika í greininni, af skornum skammti enda afar kostnaðarsöm verkefni og fjárveitingar takmarkaðar. Flest ríki sem við berum okkur saman við bjóða upp á sambærilegt fyrirkomulag og er við lýði hér á landi hvað varðar endurgreiðslur vegna kvikmyndaframleiðslu. Sem dæmi um framsækið endurgreiðslukerfi má nefna endurgreiðslukerfi Írlands en írska ríki býður, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, 32-35% endurgreiðslur á framleiðslu þar í landi. Belgía, Malta, Eistland, Ungverjaland og Frakkland fylgja þar fast á eftir með hagstæðum endurgreiðslum og er þá ótalið þeirra náttúra og sérkenni. Það er því ljóst að íslensk kvikmynda- og sjónvarpsframleiðsla þarf að styðjast við hagstætt og skilvirkt endurgreiðslukerfi til þess að vera keppnishæft í alþjóðlegum skilningi.“

Í niðurlagi greinarinnar segir Lilja að ávinningur endurgreiðslukerfisins sé skýr, það sé því ákjósanlegt að viðhalda kerfinu en styrkja það enn frekar vegna þess að fjár­fest­ing í kvik­mynda­fram­leiðslu skili sér marg­falt til baka.

Á Vísi er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Vísir, 8. nóvember 2021.