Fréttasafn



13. apr. 2021 Almennar fréttir Menntun

Umbætur í menntun efla samkeppnishæfni

Jóhanna Vigdís Arnardóttir, verkefnastjóri í menntamálum hjá SI, segir í grein í Morgunblaðinu að með umbótum í menntamálum eflum við samkeppnishæfni Íslands og verðum betur í stakk búin til að endurreisa hagkerfið. Í greininni sem ber yfirskriftina  Umbætur í menntun efla samkeppnishæfni segir að öflugt menntakerfi sé forsenda góðra lífskjara og þurfi að þróast með þeim hætti að það leiði saman færni mannauðsins og þarfir atvinnulífsins á skilvirkan og hagkvæman hátt. Á sama tíma og menntun feli í sér tækifæri fyrir einstaklinginn þá sé menntun mannauðsmál fyrir atvinnulífið. 

Aðsókn í starfsnám aukist síðustu ár

Jóhanna Vigdís segir að aðsókn í starfsnám hafi aukist síðastliðin ár en Samtök iðnaðarins hafi það að markmiði að árið 2025 velji 20% grunnskólanema starfsmenntun og hlutfall brautskráðra í STEM-greinum verði 25%. Hún segir að þar sem menntunarstig hvers samfélags hafi veruleg áhrif á hagsæld þess sé mikilvægt að fyrir liggi stefnumið varðandi menntun íslensku þjóðarinnar til framtíðar þannig að mannauðurinn standist samanburð við það sem best gerist.

Fimm umbætur í menntamálum til að ná frekari árangri

Í greininni tiltekur hún hvaða umbætur Samtök iðnaðarins hafi lagt til í menntamálum til að ná enn frekari árangri: Í fyrsta lagi þarf að opna aðgengi starfsmenntaðra að háskólanámi og vinna gegn kerfislægum vanda starfsmenntunar er varðar námsframvindu, námslok og tækifæri nemenda til framgangs að námi loknu. Stórt skref í þá átt er að Alþingi samþykki frumvarp um breytingu á lögum um háskóla sem nú er í Samráðsgátt stjórnvalda. Í öðru lagi þurfa stjórnvöld að greiða götu þess að framkvæmdir við byggingu nýs Tækniskóla verði hafnar á árinu 2022. Í þriðja lagi þarf að innleiða hvata til að háskólar útskrifi fleiri nemendur í STEM-greinum. Í fjórða lagi þarf að efla og hvetja til nýsköpunar og nýstárlegrar kennslutækni á öllum skólastigum. Í fimmta lagi þarf að ljúka innleiðingu rafrænna ferilbóka í öllum greinum á árinu 2021.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni. 

Morgunbladid-13-04-2021