Fréttasafn



13. feb. 2018 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Umhverfis- og auðlindafræði HÍ í samstarfi við atvinnulífið

Möguleikar meistaranema í umhverfis- og auðlindafræði í Háskóla Íslands til starfsnáms aukast til muna með samstarfssamningum sem námsleiðin hefur gert við við sex stofnanir, félagasamtök og fyrirtæki en Samtök iðnaðarins eru í þeim hópi. Sveinn Agnarsson, formaður námsstjórnar í umhverfis- og auðlindafræði, undirritaði samningana ásamt fulltrúum stofnananna og fyrirtækjanna sem sjást á myndinni sem Kristinn Ingvarsson tók. 

Samstarfsaðilarnir eru auk Samtaka iðnaðarins, Orkustofnun, Orkuveita Reykjavíkur, Skipulagsstofnun, Sorpa og Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar. Unnið er að samningum við fleiri stofnanir en fulltrúar Landgræðslu ríkisins og Náttúrufræðistofnunar voru einnig viðstödd fundinn. 

Markmið starfsnámsins er að efla tengsl við atvinnulífið, veita nemendum innsýn í starfsemi sem tengist fagsviðum námsins og gera þeim kleift að takast á við hagnýt úrlausnaefni. Markmiðið er enn fremur að tryggja nemendum þjálfun undir faglegri handleiðslu reyndra stjórnenda hjá frjálsum félagasamtökum, opinberum stofnunum og fyrirtækjum sem tengjast umhverfis- og auðlindafræði. 

Nánar um samstarfið á vef HÍ.