Fréttasafn



7. nóv. 2022 Almennar fréttir Mannvirki Mannvirki – félag verktaka Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Umræða um nýjar kröfur í flokkun byggingarúrgangs

Nýjar kröfur í flokkun byggingarúrgangs sem taka gildi 1. janúar næstkomandi voru til umfjöllunar á fundi Samtaka iðnaðarins og Mannvirkis – félags verktaka í síðustu viku. Á fundinum sem haldinn var í Húsi atvinnulífsins voru fjórir frummælendur og fundarstjóri var Björg Ásta Þórðardóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI. Á myndinni hér fyrir ofan má sjá frummælendur og fundarstjóra. 

Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri mannvirkja og sjálfbærni hjá HMS, fór yfir vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð, með áherslu á þær aðgerðir sem finna má í vegvísinum sem lúta að lok líftíma bygginga. Erindi hennar bar yfirskriftina Vegvísir að vistvænni mannvirkjagerð: Aðgerðir til eflingar hringrásarhagkerfisins.

Bryndís Skúladóttir, ráðgjafi hjá VSÓ, fór yfir nýjar flokkunarkröfur sem byggjast á breytingum á lögum um meðhöndlun úrgangs sem taka gildi um næstu áramót. Yfirskrift erindis hennar var Sjö flokkar úrgangs. 

Sigrún Melax, gæðastjóri hjá Jáverk, fór yfir þær áskoranir sem verktakar takast á við tengt flokkun byggingarúrgangs en þær geta verið margar og kom fram í erindi hennar að mikilvægt er að samræmis sé gætt og leiðbeiningar séu skýrar. 

Sigríður Ósk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri umhverfismála hjá Hornsteini, fór yfir áætlanir Hornsteins og dótturfélaga þar sem áformað er að setja á fót jarðefnagarð í Álfsnesi. 

Að erindum loknum voru líflegar umræður um áskoranir verktaka um flokkun á byggingarúrgangi þar sem rætt var m.a. um mikilvægi þess að sveitarfélög og móttökuaðilar úrgangs samræmdu verklag og að heildstæðar leiðbeiningar yrðu gefnar út um efnið. Þá kom fram á fundinum að Iðan fræðslusetur hyggist setja á fót námskeið með nánari leiðbeiningum um flokkun byggingarúrgangs. 

Hér er hægt að nálgast glærur fundarins.

Image00020

Image00019

Sigríður Ósk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri umhverfismála hjá Hornsteini. 

Image00027

Sigrún Melax, gæðastjóri hjá Jáverk. 

Image00038

Bryndís Skúladóttir, ráðgjafi hjá VSÓ.

Image00049

Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri mannvirkja og sjálfbærni hjá HMS.

Image00051Björg Ásta Þórðardóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI.

Image00025