Fréttasafn



4. apr. 2017 Almennar fréttir Menntun

Ungmenni fá kynningu á bílgreininni hjá BL

BL hefur fengið til sín fjölmörg ungmenni sem hafa kynnt sér bílgreinina og þau störf sem bjóðast í þeirri iðngrein. Um hundrað og fimmtíu manns komu í heimsókn á verkstæði BL, ungmenni, foreldrar, afar og ömmur ásamt námsráðgjöfum í grunn- og menntaskólum á höfuðborgarsvæðinu. Í tilkynningu frá BL segir Trausti Björn Ríkharðsson verkstæðisformaður að heimsóknin hafi verið ánægjuleg, meðal annars vegna þess hve starfsmenn BL fengu margar spurningar frá gestum, ekki síst krökkunum og námsráðgjöfum skólanna um störfin sem greinin hefur að bjóða. „Þetta eru ekki bara bilanagreiningar, viðhald og viðgerðir, heldur einnig þjónustu vegna fyrirspurna gegnum síma, afgreiðsla varahluta, sala bíla og ýmis skrifstofustörf,“ segir Trausti, sem kveðst einnig sérlega ánægður með heimsókn námsráðgjafanna.

Öll störf eru kvennastörf

Trausti segir vakningu vera á þessum störfum meðal stúlkna. „Sérstaklega er ánægjulegt hve stúlkurnar sýna mikinn áhuga þegar þær fá kynningu á tækifærunum sem atvinnugreinin hefur að bjóða. Margar höfðu alls ekki gert sér grein fyrir fjölbreytileikanum og þeim vinnuaðstæðum sem nú tíðkast. Bílgreinin er mjög tæknivædd grein sem hentar mjög vel báðum kynjum, eins og reyndar öll störf gera. Öll störf eru kvennastörf.“ 

Trausti segir nemendaheimsóknirnar einnig hafa jákvæð áhrif á starfsfólk BL. „Líklega hafa heimsóknirnar verið eitt besta hópefli sem ég hef tekið þátt í. Þær hafa vakið okkur til aukinnar meðvitundar um mikilvægi starfa okkar, greinarinnar sem slíkrar og það hversu mikið hún hefur þróast undanfarin ár, sérstaklega síðastu tuttugu ár. Á næstu fimm árum munum við sjá sambærilega stökkbreytingu og varð síðustu tuttugu ár.“ Hann segir bílgreinina vera spennandi vettvang fyrir áhugasöm ungmenni sem vilja tileinka sér þann nýja tækniheim sem við eigum eftir að upplifa á næstu árum.